Elva Rós (29 vikur)

Fyrirburar

Elva Rós fæddist 13. feb 2012 eftir 29 vikna meðgöngu. Ég lá inni í mánuð fyrir fæðingu vegna blæðinga út af fyrirsætri fylgju. Við búum í Frankfurt og komum heim til Íslands í jólafríinu og áttum flug heim 8. janúar. En aðfaranótt 4 janúar byrjaði að blæða allt í einu og var ég lögð inn og mér bannað að fara aftur heim til Frankfurt.

Við tókum bara einn dag í einu og þarna var ég bara komin 23 vikur og því vildu læknarnir ekki gefa mér sterasprauturnar. En þar sem þetta var svo nálægt 24 vikunum og við vorum ekki alveg viss um hvort ég væri jafnvel komin lengra, ákváðu læknarnir að gefa mér allavega eina sterasprautu. Blæðingarnar hættu og ég lá inni í nokkra daga. Ég fékk svo að fara heim til foreldra minna á meðan strákurinn minn (þá 2ja ára) og maðurinn minn fóru aftur til Frankfurt.

Það byrjaði alltaf að blæða aftur, þannig að um miðjan janúar var ég bara komin inn á sængurkvennadeildina. Ég lá þar og í lokin var farið að blæða nánast daglega og ég fékk regulega blóðgjöf þar sem litla stúlkan mín var alltaf svo hress og góð í maganum. Þetta var því algjör línudans hjá læknunum, enda það besta fyrir litlu að vera inni en það besta fyrir mig að þetta væri búið. Það fór því þannig að 13. febrúar losnaði fylgjan frá og það var ekki hægt að bíða lengur. Hún var því tekin með bráðakeisara og ég svæfð. Ég lenti á gjörgæslu í ca. hálfan sólarhring v/ blóðmissis, en svo fékk ég að sjá litla kraftaverkið mitt ca. 18 stundum eftir að hún var fædd.

Elva Rós var 1550 gr og 45 cm, hún náði að anda sjálf þegar hún kom í heiminn en eftir nokkra tíma var ákveðið að setja hana í öndunarvél þar sem þetta var svo erfitt fyrir hana. Hún var í henni fyrstu 3 dagana og fór svo á CPAP-inn. Hún var á hágjörgæslunni í tæpa viku og færðist svo yfir á gjörgæsluna. Hún átti í erfiðleikum með að melta í byrjun, fósturæðin var opin og hún þurfti einu sinni að fá blóðgjöf.
En svo fór þetta bara allt upp á við og eftir einungis tvær vikur þá fór hún yfir í vaxtaræktina til að dafna og vaxa. Við vorum í mánuð á vaxtaræktinni og þar snerist lífið þar um að borða og sofa. Elvu fannst pelinn alveg æðislegur og vildi ekkert með brjóstið mitt að gera, en ég gafst ekki upp.
Við fórum heim í byrjun apríl og svo fengum við að fara heim til Frankfurt nokkrum dögum eftir settum degi Elvu Rósar eða 29. apríl. Elva Rós hefur verið mjög hraust og góð, hún fær auðvitað allar pestir sem stóri bróðir kemur með heim en það er allt eðlilegt. Fósturæðin er búin að lokast og læknarnir hérna úti eru mjög ánægðir með hana. Hún er að verða 1 árs núna (9,5 mánaða leiðrétt) og er soldið sein í öllum hreyfingum og er ekkert að flýta sér. En við erum í sjúkraþjálfun og það er allt að koma hjá henni (hérna úti er það standard að allir fyrirburar eru alltaf strax sendir í sjúkraþjálfun). Hún er farin að vinka, sýna hvað hún er stór og segja mamma og brosir svo bara allan sólarhringinn og unir sér vel. Miðað við 1 árs barn er hún mjög stór, þannig að það er sko ekki að sjá að hún sé fyrirburi. Það er alveg ótrúlegt hvað þessir snillingar á vökudeildinni geta gert fyrir þessi litlu kríli okkar.
Í pabbafangi
Í fyrsta sinn án CPAP
Með hringinn hennar mömmu á maganum
Gott að lúra
Á vaxtaræktinni
10 mánaða