Ung- og smábarnavernd

Hjúkrunarfræðingur frá ung- og smábarnaverndinni kemur í heimavitjanir skömmu eftir heimkomu og þegar barnið hefur aldur til fer það í skoðun á heilsugæslustöðina sína. Á höfuðborgarsvæðinu er öllum fyrirburum fæddum fyrir 32 vikur og eða léttari en 1500 g boðið að koma í ung- og smábarnaverndina á Þönglabakka 1 í Mjódd sem sniðin er að þörfum fyrirbura. Hjúkrunarfræðingurinn kemur á Vökudeildina fyrir útskrift og kynnist þar foreldrum og barni og ræðir við starfsfólk. Eftir að heim er komið er komið í heimavitjanir eins oft og þurfa þykir. Barni og foreldrum er einnig boðið að koma til skoðunar hjá barnalækni og hjúkrunarfræðingi á Þönglabakka. Þessum börnum er einnig boðið að fara í sérstakar skoðanir til að meta þroska þeirra. Slíkar skoðanir bjóðast einnig öllum öðrum fyrirburum á landinu ef foreldrar óska þess. Samtímis þessari eftirfylgd heilsugæslunnar eru fyrirburar sem fæðast mikið fyrir tímann fyrst um sinn einnig í eftirliti hjá læknum Vökudeildarinnar upp á Barnaspítala (1).

Börn sem fædd eru fyrir 32 vikur og/eða undir 1500 g að þyngd þurfa að vera í sérstöku eftirliti og fylgjast þarf betur með heyrn og sjón hjá þeim. Á Vökudeildinni eru augu fyrirburanna skoðuð og heyrn þeirra mæld og eftir heimför fara þau í fleiri skoðanir. Það er fylgst betur með þeim þar sem þau teljast í aukinni áhættu að greinast með skerðingu á sjón eða heyrn. Fyrirburar eiga að fá sömu bólusetningar og önnur börn og við sama lífaldur, en ekki miðað við leiðréttan aldur nema sérstakar aðstæður segi til, til dæmis veikindi barns. Fyrirburar gætu auk þess þurft að fá aukalega bólusetningar gegn inflúensu teljist þeir í áhættuhópi og er það mat barnalækna hvað eigi við í hverju tilfelli fyrir sig (2). Hér er að finna efni frá Landlæknisembættinu með upplýsingum um bólusetningar (3) og um eftirfylgd fyrirbura í ung- og smábarnavernd (bls. 315) (2).

Heimildir:
  1. Miðstöð heilsuverndar barna. (2007). Ung- og smábarnavernd fyrirbura. Sótt 8. júní 2009 af http://www.heilsugaeslan.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=1947
  2. Anna Björg Aradóttir, Sesselja Guðmundsdóttir og Geir Gunnlaugsson (Ritstj.). (2009). Ung- og smábarnavernd. Leiðbeiningar um heilsuvernd barna. (Rafræn útgáfa). Reykjavík: Landlæknisembættið. Sótt 13. ágúst 2009 af http://landlaeknir.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=4138
  3. Sóttvarnalæknir. (2007). Upplýsingar um bólusetningar barna fyrir foreldra og aðstandendur. Reykjavík: Landlæknisembættið. Sótt 5. maí 2009 af http://www.landlaeknir.is/Uploads/FileGallery/Utgafa/Bolusetningar_leidb.f.foreldra_1.jan.2007.pdf