Þroski

Þroskamæling við 5 ára aldur hjá litlum fyrirburum (<1000 g) fæddum á Íslandi á tímabilinu 1991-1995 gaf til kynna að um fjórðungur fyrirburanna næði sama árangri samanborið við fullburða börn í samanburðarhópi (1). Í heildina voru niðurstöður fyrirburanna þó almennt lakari en fullburða barnanna og var munurinn helst í vitsmunaþroska og skynhreyfiþroska. Niðurstöður mælinga á fínhreyfingum sýndi um árs mun í frammistöðu milli hópanna, þar sem fyrirburarnir skoruðu lægra en samanburðarhópurinn.

Frávik í málþroska hjá fyrirburum mældust væg en höfundar bentu þó á að erlendar rannsóknir hafi sýnt aukningu í frávikum í málþroska hjá fyrirburum þegar reyna fer á flóknari málfarslega færni við bóklegt nám (1). Fyrirburar eru oft seinni til í hreyfiþroska en jafnaldrar þeirra. Þeir geta verið seinni til að sitja og ganga, með skynhreyfiþroska, samhæfingu og fínhreyfingar. Þegar hreyfiþroski fyrirbura er metinn skal sem áður notast við leiðréttan aldur barnsins (2).

Rannsókn á þroska lítilla fyrirbura (<801 g) samanborið við fullburða systkini þeirra sem gerð var þegar börnin voru 5 ára sýndi að fyrirburarnir skoruðu lægra en systkini sín í prófum sem mældu málþroska, teiknikunnáttu, vitsmunaþroska og skynhreyfiþroska (3).

Heimildir:
  1. Ingibjörg Georgsdóttir, Evald Sæmundsen, Þóra Leósdóttir, Ingibjörg Símonardóttir, Snæfríður Þóra Egilson og Atli Dagbjartsson. (2004). Litlir fyrirburar á Íslandi. Niðurstöður þroskamælinga við fimm ára aldur. Læknablaðið, 90, 747-754. 
  2. Huddy, C. L. J., Johnson, A. og Hope, P. L. (2001). Educational and behavioural problems in babies of 32-35 weeks gestation. Archives of Disease in Childhood – Fetal and Neonatal Edition, 83, F23-28.
  3. Kilbride, H. W., Thorstad, K. og Daily, D. K. (2004). Preschool outcome of less than 801-gram preterm infants compared with full term siblings. Pediatrics, 113, 742-747.