Heimför og fyrstu árin

Það kemur að því að barnið verður tilbúið að fara heim með foreldrum sínum, þegar barnið er orðið nægilega þroskað og heilbrigt, eftir að það hefur fengið allar nauðsynlegar skoðanir og foreldrar fengið alla nauðsynlega fræðslu og aðstoð (Committee of Fetus and Newborn, 2008). Það er mjög einstaklingsbundið hvernær börn eru tilbúin en að jafnaði má reikna með að heimför geti átt sér stað í kringum áætlaðan fæðingardag barnsins (Korvenranta o.fl., 2007).

 

Áður en barnið fer heim þarf ástand þess að hafa verið stöðugt í nokkurn tíma. Það þarf að vera búið að ná líkamlegum þroska, hafa náð að þyngjast nægilega vel, geta haldið á sér hita í venjulegu rúmi í herbergi með eðlilegu hitastigi. Barnið þarf að hafa náð góðum tökum á að nærast af brjósti eða pela og í flestum tilfellum að hafa losnað við magasondu. Ef það nærist enn með aðstoð sondu þurfa foreldrar að hafa fengið nægilegar leiðbeiningar. Barnið þarf að hafa farið í allar nauðsynlegar skoðanir, til dæmis blóðprufur, heyrnamælingar og augnskoðanir. Fyrir útskrift þurfa foreldrar að fá upplýsingar um næringarþörf barnsins, svefn og læknisskoðanir. Foreldrar þurfa til dæmis að vita hvert þeir eiga að fara með barnið í skoðanir og hvenær verði komið heim frá ungbarnaverndinni að skoða barnið. Einnig þurfa foreldrar að hafa fengið ráðleggingar um heimsóknir og hreinlæti. Fyrirburar eru viðkvæmari fyrir sýkingum og passa þarf sérstaklega upp á þá, sérstaklega meðan flensur og veirur ganga yfir. Misjafnt er eftir ástandi barnsins og hversu mikið fyrir tímann barnið er fætt hversu miklar varúðarráðstafanir eru gerðar og sjá læknar og hjúkrunarfræðngar um að ráðleggja foreldrum hvað henti í þeirra tilfelli. Þó passa þurfi vel upp á fyrirburann þá verða öll börn smám saman að fá að komast í snertingu við eðlilegt umhverfi til að ónæmiskerfið þeirra fái að þroskast eðlilega (Committee of Fetus and Newborn, 2008).

 

Þegar líður að útskrift barnsins af nýburadeildinni geta viðhorf og tilfinningar foreldra verið ólíkar. Sumir foreldrar vilja flýta heimför eins mikið og hægt er, meðan aðrir foreldrar eru óöruggir og treysta sér illa til að fara úr umhverfinu á nýburadeildinni og vera ein heima með barnið (Papageorgaiou, o.fl, 2005). Áður en barnið útskrifast af Vökudeildinni geta foreldrar fengið að gista með barnið í sérstöku foreldraherbergi. Foreldrar og barn geta þá aðlagast og vanist því að vera ein meðan starfsfólk deildarinnar er enn skammt undan ef þörf er á. Það fer eftir álagi á deildinni hvort og þá hvaða foreldrum sé boðið afnot af herberginu. Foreldrar sem eru að eiga sitt fyrsta barn fá herbergið gjarnan frekar og foreldrar sem búa lengra frá spítalanum.

 

 

Félagið

Félag fyrirburaforeldra var stofnað árið 2008.

Félagið er ætlað öllum fyrirburaforeldrum til að hittast og ræða saman og til að gæta hagsmuna fyrirbura og foreldra þeirra.

Væntanlegt er hér á vefinn upplýsingar um félagið og lög þess og hvað helst sé á dagskrá hjá félaginu hverju sinni.

Aðalfundur verður haldinn snemma árs og eru áhugasamir beðnir um að fylgjast auglýsingu hér á vefnum og á facebook síðu fyrirburaforeldra.

Um síðuna

Umsjónarmaður síðunnar er Drífa Baldursdóttir lýðheilsufræðingur og fyrirburamóðir. Hægt er að hafa samband í gegnum vefpóst á drifa@fyrirburar.is

Heimasíðan er unnin af Drífu Baldursdóttur fyrirburamóður. Sambýlismaður hennar Sveinbjörn Hafsteinsson og fyrirburamamman Baddý Sonja Breidert sáu um tæknilegu hliðina við uppsetningu heimasíðunnar.

Um verkefnið

Fræðsluefnið sem er á síðunni vann Drífa sem meistaraverkefni í Lýðheilsufræðum við Háskólann í Reykjavík árið 2009, undir leiðsögn dr. Geirs Gunnlaugssonar prófessors við skólann og með samvinnu við yfirmenn Vökudeildar Barnaspítala Hringsins, Þórð Þórkelsson yfirlækni og Ragnheiði Sigurðardóttur deildarstjóra.
Þróunarverkefnið um gerð vefsíðunnar fyrirburar.is hlaut styrk frá Nýsköpunarsjóði Námsmanna árið 2009.

Þessi heimasíða er tileinkuð Hildi Arneyju dóttur Drífu sem kom í heiminn 11 vikum of snemma, því án hennar innkomu í líf hennar hefði þetta verkefni aldrei orðið að veruleika.