Emma Þórunn
Emma Þórunn fæddist klukkan 03:59 á Landspítalanum þann 4. október 2008 eftir 32 vikna og 3 daga meðgöngu. Hún vóg 2.080 grömm og mældist 45 cm
Meðgangan og fæðingin
Sagan byrjaði í raun rúmri viku áður, eða þann 24. september 2008 þegar ég hafði fundið fyrir túrverkjum og samdráttum í rúman sólarhring og fór í skoðun á fæðingargang Landspítalans. Þegar þangað var komið kom í ljós að töluvert mældist af samdráttum í monitor, leghálsinn var styttur og ég komin með 2 cm útvíkkun. Þá var ég lögð inn á Landspítalann, þar sem við gistum þá nóttina í fæðingarherbergi.
Ég fékk sterasprautur til þess að flýta fyrir lungnaþroska Emmu, stopplyf til þess að reyna að stöðva hríðarnar og penicillin á 4 klst fresti, vegna þess að grunur var um að sýking hefði komið hríðunum af stað, sem reyndist þó ekki vera raunin. Þetta var langt kvöld og löng nótt. Við vorum búin undir fyrirburafæðingu af yndislegri ljósmóður sem annaðist mig. Við fengum líka viðtal við barnalækni og fengum að skoða vökudeildina. Við höfðum margar spurningar og fundum fyrir því að leitast var eftir að svara þeim eftir fremstu getu. Á vökudeildinni var okkur sýndur hitakassinn þar sem búið var að búa um Emmu og þau biðu eftir henni.
Sem betur fer minnkuðu samdrættirnir um nóttina. Morguninn eftir var ég því lögð inn á meðgöngudeildina, þar sem ég var 3 nætur í viðbót. Á meðgöngudeildinni hélt lyfjagjöfin áfram. Eftir 48 klst af stopplyfinu í æð mældust ennþá samdrættir, en þó óreglulegir og án verkja. Ákveðið var að ég tæki blóðþrýstingslyf til þess að reyna að róa legið. Ég var svo útskrifuð og fékk að fara heim með þau skilaboð að slappa af og gera sem minnst. Samdrættirnir héldu þó alltaf áfram.
Að kvöldi 2. október var mér hætt að lítast á samdrættina sem voru þá orðnir mjög harðir og reglulegir, en þó án verkja. En við sáum magann ganga til af krafti við hvern samdrátt. Ég fékk því að koma aftur upp á fæðingargang í skoðun það kvöld. Þegar þangað var komið var ég sett í monitior sem mældi mjög reglulega samdrætti. Við skoðun kom í ljós að útvíkkunin á leghálsinum var orðin 4 cm og kollurinn hennar Emmu var komin langt niður. Þannig að ég var aftur innskrifuð á spítalann, og aftur eyddum við nóttinni í fæðingarherbergi. Við fengum sömu yndislegu ljósmóðurina og síðast. Hún var fullviss um að Emma myndi fæðast í fyrrikantinum þá nóttina.En allt kom fyrir ekki og aftur var ég flutt á meðgöngudeildina.
Daginn eftir fór ég að finna fyrir „túrverkjum“ og verkjum í mjóbakinu. Ég var því einu sinni enn flutt aftur á fæðingarganginn. Því miður fékk ég ekki aftur sömu ljósmóðurina, en í staðinn fékk ég aðra sem var alveg eins yndisleg. Þær voru tvær og þegar mest var þrjár ljósmæðurnar sem aðstoðuðu mig í fæðingunni. Ein þeirra var tilbúin allann tíman að fylgjast með því hvenær þyrfti að kalla á barnalækninn. Barnalæknirinn kom svo á hlaupum rétt áður en Emma kom í heiminn. Fæðingin gekk mjög vel, þrátt fyrir eðlilegar kvalir, og Emma fékk að liggja í örstund á maganum mínum áður en læknirnn tók hana.
Vökudeildin
Farið var með Emmu á vökudeildina og maðurinn minn fylgdi á eftir. Þetta var undarlegur tími að bíða alein með ljósmóðurinni á meðan hún var að sauma mig. En maðurinn minn kom svo til baka með myndir af Emmu í hitakassanum. Þetta var allt svo óraunverulegt!
Emma var með fulla súrefnismettun og fór beint í hitakassa. Þar sem ekki tókst að stinga hana til þess að gefa henni vökva í æð var strax sett upp sonda (upp í gegnum nefið) sem gekk svo ljómandi vel.
Ég fékk að liggja á meðgöngudeildinni áfram og var mjög þakklát fyrir það. Enda þekkti ég starfsfólkið og fannst betra að vera ekki í kringum konurnar sem fengu að hafa nýfæddu börnin sín hjá sér. Ég fékk lánaða rafmagnspumpu inn á herbergið mitt og svo pumpaði ég samviskusamlega þessa örfáu dropa sem ég gat og fór með þá til Emmu. Þetta reyndist svo vera mitt helsta hlutverk næstu daga, að pumpa og pumpa sárar geirvörturnar í risa rafmagnspumpu og arka með nokkra dropa af gulum broddi inn á vökudeildina nokkrum sinnum á dag.
Rúmum sólarhring eftir fæðingu fékk Emma svo að fara í fyrsta skipti á brjóstið. Hún tók aðeins við því en drakk auðvitað ekki neitt ennþá. Hún fór líka fljótlega í ljós vegna gulu sem er mjög algeng hjá nýburum.
Emma var hraust og dugleg og í heildina litið gekk okkur rosalega vel á vökudeildinni. En ég get ekki sagt annað en að þetta hafi verið ofboðslega erfitt fyrir mig. Því miður fékk ég ekki mikinn stuðning þar sem maðurinn minn var í vinnu og varð að mæta þangað. Ég var því ein á vökudeildinni hálf kjökrandi flesta daga.
Mér fannst ég líka hálfgerður óþarfi þarna. Ég vissulega pumpaði mig, og fljótlega fór mjólkin að flæða. Fyrst um sinn fékk Emma þann brodd sem ég átti og svo þurrmjólk í sonduna, en fljótlega fór hún að fá eingöngu brjóstamjólk. Okkur var sýnt „mjólkureldhúsið“ þar sem við merktum mjólkina hennar og settum hana á hennar stað í ísskápinn. Þegar kom að gjafatíma var það okkar hlutverk að finna hennar mjólk, mæla það sem hún þurfti, hita mjólkina, setja hana í sprautu og sprauta henni í sonduna. Ásamt því að skipta um bleiu.
Þann 8. október var Emma flutt yfir á „vaxtarræktina“ þar sem hún var ekki í eins mikilli gjörgæslu. Þar hélt hún áfram að vera í hitakassanum þar til 10. október þegar hún fór í vöggu með hitadýnu.
Það komu upp örlitlir en eðlilegir hnökrar. Emma átti það til að „gleyma sér að anda“ eins og algengt er með fyrirbura, og hún tók þá svokallaðar apneur. Þetta fannst mér hræðilegt og brá mikið og táraðist í hvert skipti sem þetta gerðist. Henni var svo gefið lyf til þess að hjálpa henni með öndunina á meðan þetta skeið gekk yfir. Þetta var víst samt sem áður ekkert til að hafa áhyggjur af, heldur eitthvað tímabil hjá mörgum fyrirburum sem gengur yfir.
Ég fann mikið fyrir þessari tilfinningu sem margir fyrirburaforeldrar tala um, að finnast þetta varla vera mitt barn. Ég vissi ekki hvernig ég ætti að sjá um hana. Það var æðislegast af öllu að taka hana upp á gjafatímum og fá að halda á henni í smá stund á meðan hún fékk mjólk, en fyrir utan gjafatíma fannst mér tilgangur minn ekki mikill. Mér fannst ég alltaf þurfa að spyrja hvort ég mætti gera hitt eða þetta og þetta allt vera fremur óraunverulegt, og ef tækin pípuðu panikkaði ég.
Brjóstagjöfin fór mjög hægt af stað, enda var Emma lítil og pínulítið löt með guluna. Hún var mæld fyrir og eftir að hún fór á brjóstið. Það var frábært þegar eitthvað mældist, fyrst 2 g. Þá fékk hún límmiða í bókina sína og við vorum svo stolt. Eftir nokkra daga var hún svo komin upp í 10 g.
Tíminn leið hægt á spítalanum. En Emma var þar í rúmar 3 vikur. Það var skrítið að fá að fara heim og ég var mjög hissa þegar okkur var tilkynnt að við værum á heimleið. Við fengum svokallað útskriftarviðtal á föstudeginum 24. október. Þetta var ekki skylda en mér þótti mjög gott að fá að tala við einhvern um framhaldið af vökudeildinni. Frá föstudegi og til mánudags fengum við svo að gista saman, öll fjölskyldan, ég, maðurinn minn og Emma, í svkölluðu foreldraherbergi vökudeildarinnar. Þetta er að vísu ekki stórt herbergi, einungis tvö lítil rúm, sjónvarp, fataskápur, salerni og sturta, en það var æðislegt að fá að vera ein og útaf fyrir okkur innan veggja spítalans og með læknana og allt góða starfsfólkið innan handar. Ég mæli sterklega með því að allir nýti sér þessa þjónustu ef hún er enn í boði.
Það gekk æðislega vel að vera ein í herberginu. En það var rosalega skrítið að vigta hana ekki fyrir og eftir bjóstið. Ég hafði miklar áhyggjur af því að hún væri ekki að drekka nóg, og næturnar voru skrítnar þar sem við hálf-vöktum yfir Emmu. Áhyggjurnar reyndust óþarfar enda þyngdist Emma yfir helgina um 80 g.
Við vorum svo útskrifuð á mánudeginum 27. október. Mikið er ég þakklát fyrir fólk vökudeildarinnar, enda er þar frábært starfsfólk. Eiginlega sakna ég stundum vökudeildarinnar á undarlegan hátt. Þrátt fyrir að mér hafi sjaldan liðið eins illa og þegar við vorum þar, þá sakna ég starfsfólksins og staðarins.
Að lokum
Nú er Emma orðin rúmlega eins árs. Henni hefur alltaf gengið ljómandi vel. Hún hefur alltaf þyngst og dafnað vel. Hún er að vísu svolítið sein til í sumu. Hún skríður ekki og er einungis nýlega farin að renna sér um á rassinum. Hún er ekki farin að standa upp og getur ekki sest upp sjálf. Hún er þó mjög dugleg við fínhreyfingarnar, finnst skemmtilegt að fletta bókum og matar sig sjálf af t.d. brauðbitum.
Hún er hjá sjúkraþjálfara og það að að hún sé sein til í ýmsu er alls ekki talið stafa af því að hún sé fyrirburi, heldur því að hún er róleg en þrjósk stelpa. Hún tekur vel eftir, „spjallar“ og er farin að mynda orð.
Margir hafa áhyggjur af því að fyrirburar verði oftar veikir en önnur börn, en Emma hefur ekkert verið meira veik en önnur börn í kringum okkur, þrátt fyrir að vera á leikskóla.
Þegar ég horfi til baka þá sé ég að sagan okkar er góð. Emmu gekk alltaf ljómandi vel. Við vorum heppin að fæðingin, legan á vökudeildinni og framhaldið hefur allt gengið frábærlega vel. En vissulega var þetta erfitt tilfinningalega fyrst um sinn.
Ég sendi líka með nokkrar myndir frá vökudeildinni. Fjórar af okkur á deildinni og ein á heimleið.
Bestu kveðjur,
Sigrún Halla Ásgeirsdóttir