Meðgöngusaga Ingimundur Helgi

Fyrirburar

Meðgöngusaga
Ingimundur Helgi

Þegar ég var lítil kom í ljós að ég er með tvískipt leg. Síðan þá hugsaði ég mikið um þetta, hugsaði um legið, barneignir og hvort, þegar á hólminn var komið, ég gæti gengið með barn. Rétt fyrir páska á þessu ári stóð ég inni á baðherbergi með jákvætt þungunarpróf í hendinni. Hræðsla, spenna, kvíði, gleði og margar aðrar tilfinningar komu í einni gusu. Eftir margra ára vangaveltur um mitt ástand var loksins komið að því, ég var ólétt.

Ég og Jói, maðurinn minn, vissum að það yrðu einhver vandræði á þessari meðgöngu en hvaða vandræði vissum við ekki. Við fóru heim á Sauðárkrók í páskafrí fljótlega eftir að við vissum að ég væri ólétt. Ég pantaði tíma þar hjá lækni í sónar til að vita hvað ég væri komin langt. Mánudaginn eftir páska, daginn sem ég átti tíma í sónar, vaknaði ég kl 7 og ætlaði á klósettið. Þegar ég stóð upp fann ég að það var farið að blæða þónokkuð mikið hjá mér. Ég hljóp inn á klósett þar sem ég var blóðug niður á læri. Ég fór til foreldra minna, sagði þeim hvað gerðist og grét. Öll gerðum við ráð fyrir að fóstrið væri farið. Jújú ég hafði alveg eins búist við þessu, ég allavega bjóst ekki endilega við því að þetta tækist í fyrstu tilraun. Jói var farinn til Reykjavíkur að vinna þannig að mamma kom með mér í sónarinn eftir hádegið, við bjuggumst báðar við því að fá erfiðar fréttir en viti menn á skjánum sást nestispoki og lítill sláttur í hægri hluta legsins. Læknirinn sagði að við gætum aftur orðið hæfilega bjartsýn því þarna væri 5 vikna fóstur sem virtist vera allt í lagi með.

Af því ég var með tvískipt leg var ég í áhættumeðgöngu og var því í eftirliti á Landspítalanum. Komin 8 vikur fór ég í snemmsónar hjá Brynju fæðingalækni. Eftir skoðunina var hún mjög ánægð, staðsetningin á fóstrinu var góð og þarna var það ennþá, með hjartslátt og farið að hreyfa sig. Eftir tímann settist ég inn í bíl með Jóa og þar fór ég að hágráta af gleði. Ég trúði því varla að allt hefði komið svona vel út og Brynja læknir bjartsýn á allt saman. Þvílíkur léttir sem það var, allavega í bili. 12 vikna sónarinn kom einnig vel út og aftur horfðum við á þetta litla fóstur orðið mun stærra, ennþá með þennan flotta hjartslátt og spriklandi. Þvílík gleði.

13. júní, komin 15 vikur, fór ég í leghálsmælingu hjá Brynju fæðingalækni. Jói kom með mér (eins og í fyrri skoðanir og allar skoðanir eftir þessa). Þá kom það sem ég var búin að bíða eftir, vandræði. Leghálsinn mældist aðeins 2,3 cm en eðlilegur ætti hann að vera 4-5 cm. Svona þunnur átti hann ekki að vera fyrr en nálægt fæðingu og við vorum langt frá því. Þarna vorum við komin í hættu á að missa litla krílið okkar. Samkvæmt læknisráði mátti ég ekki vinna meira og þurfti að taka því mjög rólega, ég mátti labba rólega um, ekki lyfta neinu þungu eða reyna neitt á grindarbotninn. Ég var líka sett á prógesterón hormón til að róa legið. Þessi dagur var mjög erfiður, mér fannst ég algjörlega vera að bregðast þessu litla kríli sem var svo duglegt að stækka og dafna og ekkert var að. Mér leið eins og ég væri að valda dauða barnsins míns ef ég myndi missa það því það væri ég, minn líkami, sem væri að valda missinum. Ég grét mikið þennan dag en var ákveðin í að gera allt sem ég gæti til að halda krílinu inni, en það var lítið annað en að taka því rólega. Jói sá um allt annað, fór í búð, þreif íbúðina og þjónaði mér eins og ég væri prinsessa. Læknirinn sagði að við ættum að stefna á að ná 28 vikum, allt eftir það yrði bónus. Við vissum alltaf að þetta yrði fyrirburi.

Viku síðar, komin 16 vikur, fór ég í aðra mælingu og þá var leghálsinn búinn að lengjast í 2,9 cm sem voru frábærar fréttir. Þá fengum við líka að vita að ég væri með lítinn duglegan dreng og foreldrarnir alveg að rifna úr stolti yfir þessum dugnaðarforki sem stækkaði vel. Um það bil þarna fór ég að finna fyrir samdráttum, sérstaklega þegar ég hreyfði mig eitthvað. Fæðingalæknirinn sagði að ég yrði að hlusta vel á eigin líkama og reyna að halda samdráttunum í algjöru lágmarki með því að hvíla mig. Svona gekk þetta um sumarið, ég fór í leghálsmælingu hverja eða aðra hverja viku og ýmist var leghálsinn búinn að styttast eða lengjast, stundum urðum við mjög stressuð og stundum gátum við andað léttar í smá stund en alltaf var ég í mikilli hvíld. Þetta sumar gerði ég lítið annað en að liggja upp í rúmi, einstaka sinnum fór ég eitthvað smá út t.d. að hitta vinkonurnar á kaffihúsi en mest allan tíman lá ég heima og reyndi að finna mér eitthvað létt að gera. Það kom mér svakalega á óvart hvað það var erfitt og þá sérstaklega að maður hafði allan heimsins tíma til að velta sér upp úr öllu því sem gæti farið úrskeiðis. Á hverjum klukkutíma hugsaði ég “okey bara x margir klukkutímar eftir af þessum degi”. Það voru ófá skipti sem ég grét hjá Jóa þegar hann kom heim úr vinnunni eða hringdi í mömmu og grét í símann. Mér fannst erfitt að hanga inni, mér fannst erfitt að finna hvernig allir vöðvar líkamans urðu veikari og veikari af hreyfingaleysi, mér fannst erfitt að geta ekki farið út og sýnt fínu óléttubumbuna mína, mér fannst erfitt að hanga uppi í rúmi allan daginn, mér fannst erfitt að láta alla aðra snúast í kringum mig, mér fannst erfitt að Jói þurfti að gera allt fyrir mig og vorkenndi honum að þurfa að hlusta á vælið og pirringinn í mér (og ALDREI varð hann pirraður á móti heldur leyfði mér að fá mína útrás og huggaði mig), það var erfitt að segja alltaf “ef” þegar ég talaði um strákinn minn (ef allt gengur vel, ef hann kemur á lífi þá…) og mér fannst erfitt að vera að bíða eftir að tíminn liði sem hraðast svo drengurinn minn gæti lifað. En á móti fengum við líka marga góða tíma, fyrsta sparkið, sónar mjög reglulega þannig að við gátum fylgst vel með drengnum stækka, fyrsta sinn sem ég fann fyrir hiksta og svo margt sem er yndislegt að upplifa á meðgöngu.

Ég var mjög glöð þegar ég fór að finna hreyfingar, það hjálpaði mikið að finna hann sprikla og vita að það væri allt í lagi með hann. Ég fór í síðustu leghálsmælinguna á 24. viku, þá mældist leghálsinn 2,7 cm sem var frábært. Eftir þennan tíma er lítið að marka leghálsmælingar og því var þeim hætt. Þarna var ég líka búin að ná 24-25 vikum og orðnar góðar líkur á að litli strákurinn myndi lifa þetta allt saman af. En samt var efinn alltaf til staðar. Núna tók við vaxtarsónar á 4ra vikna fresti til að fylgjast með hvort hann væri ekki að stækka vel og hvort hann hefði nóg pláss. Legið stækkaði mjög lítið til hliðanna, stækkaði mest upp og niður þannig að það var fljótlega sem það var komið upp í rifbeinin á mér. Bumban var þannig þegar hún var þreyfuð að ég var alveg tóm vinstra megin en hörð hægra megin, mjög spes, og þegar ég lagðist á vinstri hliðina fann ég hvernig legið (og auðvita hann) runnu yfir á vinstri hlið magans og þegar ég rétti úr mér aftur fór allt yfir til hægri og á sinn stað. Drengurinn var löngu hættur að geta snúið sér við þ.e. snúið höfðinu úr mjaðmagrindinni upp að rifbeinunum. Á viku 25 fór ég að finna aukinn þrýsting niður í grind og fannst mér stundum eins og drengurinn ætlaði að koma út NÚNA. Ég reyndi bara að hvíla mig þegar þetta gerðist en vissi ekki að þetta var ekki alveg eðlilegt svona snemma á meðgöngunni.

Snemma fór ég að finna fyrir grindagliðnun og hún versnaði eftir því sem tíminn leið. Þegar ég var kominn á hækjur ákvað ég að fá sjúkraþjálfunarbeiðni frá lækni. Þarna var ég komin um 25 vikur. Ég hringdi á Landspítalann þar sem Brynja fæðingarlæknir vildi skoða mig fyrst og fullvissa sig um að ég væri ekki með hríðarverki heldur stoðkerfisverki. Þegar ég talaði við hana nefndi ég jú að ég væri farin að finna fyrir miklum þrýsting niður. Eftir skoðunina taldi hún að verkirnir væru út af grindargliðnun en hún fann að það var orðið ansi stutt í drenginn, höfuðið var komið mjög neðarlega og leghálsinn full styttur (kannski 0,5 cm) sem átti ekki að vera nema ég væri að fara að fæða. Úff. Þarna voru komnar ákveðið miklar líkur á að hann kæmi á næstu tveim vikum og því fékk ég stera til að hjálpa lungunum hans að þroskast hraðar. Ég fann vel fyrir sterunum, varð eldrauð í andlitinu, svitnaði, gat alls ekki ver kyrr, pirruð í líkamanum og lítill sem enginn séns á að sofa um nóttina. Eftir þetta lá ég bara heima upp í rúmi og gerði ekkert nema horfa á sjónvarpið og lesa bækur. Ég ÆTLAÐI að ná 28 vikum. Vá hvað þessar þrjár vikur voru lengi að líða en á endanum liðu þær og ég náði 28 vikunum. Loksins þá fannst okkur við getað andað léttar, loksins þá fannst okkur kannski eins og þetta myndi allt enda vel. Tíminn leið, þrýstingurinn niður var stundum alveg að drepa mig, alltaf kom hausinn á drengnum neðar og neðar en einhvernveginn hélst leghálsinn lokaður og drengurinn hélst hann inni.

Komin 33 vikur fannst mér hreyfingarnar eitthvað vera farnar að breytast og á föstudagskvöldi fór ég að finna stundum fyrir verkjum með samdráttunum. Á þriðjudegi hringdi ég frekar stressuð í Rósu ljósmóður í mæðravernd og fékk að koma til að hlusta á hjartsláttinn hjá drengnum til að róa mig niður. Ég var sett í mónitor, hjartslátturinn hjá litla var auðvitað fínn eins og alltaf en ritið sýndi þó nokkra samdrætti. Við frekari skoðun kom í ljós að það voru um 2 cm í höfuðið á drengnum og ég var komin með 3 í útvíkkun. Ég var send upp á fæðingadeild þar sem ég fékk Bricanyl til að stöðva samdrætti og þar með stöðva fæðinguna. Ég titraði öll og skalf af sprautinni og mér fannst eins og hjartað ætlaði út úr bringunni á mér. Fyrsta sprautan virkaði stutt og ákveðið var að gefa mér aðra sprautu. Hún virkaði betur en ég byrjaði samt að fá samdrætti aftur en þeir héldust mjög vægir þannig að ég fékk að fara heim. Þó var ákveðið að héðan af yrði ekki reynt að stöðva fæðinguna þannig að þegar að tíminn kæmi þá mætti sá litli bara koma í heiminn og Brynja fæðingarlæknir taldi að það yrði í mesta lagi 10 dagar í það. Ég var rosalega glöð að heyra þetta, auðvitað vildi ég að hann væri sem lengst inni og fengi tíma til að þroskast sem mest en ég var sjálf algjörlega búinn á því, bæði á líkama og sál. Mér fannst ég vera með verki alls staðar, ég var með mikinn þrýsting niður og verki sem leiddu niður í læri, ég var með samdráttarverki reglulega og það var rosalega mikill þrýstingur upp í rifbeinin á mér því legið og strákurinn voru farin að þrýsta svo mikið þar (var löngu hætt að geta verið bein, þurfti alltaf að halla mér til vinstri til að létta á þrýstingnum). Streitan sem var búin að vera síðastliðnar 19 vikur var farin að segja til sín og næstu 3 daga grét ég ansi mikið. Mér leið eins og ég væri ekki nógu sterk fyrir þennan litla strák og var með samviskubit yfir að vilja fá hann núna í heiminn því ég gæti ekki meir. Hann var að gera allt sem hann átti að gera, hann stækkaði og stækkaði þarna inni en ég var að gefast upp, mér fannst ég ekki geta meira af þessu öllu saman. En áfram skal haldið.

Þremur dögum seinna, búin að vera með samdráttarverki í viku, vorum við aftur mætt upp á fæðingardeild. Við sváfum þar um nóttina en morguninn eftir, þann 27. október, voru verkirnir farnir að versna. Ég var með penicillin í æð af því ég var að fara að eignast fyrirbura. Um kl 16:30 var belgurinn sprengdur og ég komin með 9-10 í útvíkkun. Stuttu seinna gat ég byrjað að rembast. Jói var eins og klettur við hliðina á mér allan tímann. Hríðarnar voru frekar stuttar og hjálpuðu ekki nógu mikið þannig að ég fékk hríðarörvandi lyf í æð til að lengja þær og gera þær kröftugri. Við vorum svo heppin að þennan dag var að Brynja fæðingalæknirinn minn, sem var búinn að vera æðisleg í gegnum þetta allt, á vakt og gat tekið á móti drengnum.

Fallegasti kom öskrandi í heiminn kl 17:39 Hann var 10,5 merkur og 49 cm. Ég fékk strákinn beint á bringuna og þar fengu foreldrarnir að dást að honum í korter áður en farið var með hann á vökudeildina. Það var mikið hlegið og grátið á sama tíma. Hann var fullkominn í alla staði. Fylgjan var föst og ég hafði enga krafta til að rembast neitt og reynt var að losa hana í um 40 mínútur en ekkert gekk. Það byrjaði að blæða þó nokkuð hjá mér og ég féll í blóðþrýstingi. Mér var hjólað með hraði inn á skurðstofu, ég svæfð og fylgjan sótt. Þaðan fór ég á gjörgæsluna á meðan ég vaknaði og svo niður á meðgöngu- og sængurkvennadeild. Síðan ætlaði ég að fara upp á vökudeild að sjá litla strákinn minn en alltaf þegar ég stóð upp (gerði 3 tilraunir) þá var næstum liðið yfir mig. Það var kannski ekki skrítið, líkami minn var búinn að rýrna af allri þessari rúmlegu, seinni hluta meðgöngunnar gat ég varla farið í sturtu lengur því eftir hana leið mér eins og ég hafði hlaupið maraþon, síðan þurfti ég allt í einu að reyna mikið á alla vöðva líkamans til að koma litlu kríli í heiminn og í þokkabót að missa þónokkuð blóð. Þær á sængurkvennadeildinni voru svo yndislegar að þær ýttu mér í rúminu upp á vökudeild svo ég gæti séð duglega drenginn minn, gullfallega glókollinn. Þar fékk ég hann í fangið sem var dásamlegt.Ég var útskrifuð eftir um 2 sólahringa. Á hverjum morgni kl 10 mættum við á vökudeildina og vorum þar til miðnættist og fórum þá heim að sofa. Það var mjög erfitt að vera búin að eignast son og ekki geta tekið hann heim með okkur.

Strákurinn var með sondu og fékk fljótlega brjóstamjólk frá mér í gegnum hana. Hann komst úr hitakassanum ekki sólahrings gamall, hann var lágur í blóðsykri fyrst sem lagaðist fljótt og hann fór í ljós 2x vegna gulu. Hann byrjaði að taka brjóst tæplega viku gamall og var ótrúlega fljótur að komast upp á lag með það. Hann losnaði við sonduna u.þ.b. 5. nóvember. Eftir 10 daga á vökudeildinni fengum við síðan að fara heim.

Það tók mig um viku að jafna mig eftir fæðinguna og blóðmissinn, þá hætti mig að svima. Ég er ennþá að ná upp líkamlegu þreki, ég þarf að leggja mig bara eftir það að fara í búð. Fyrstu tvær vikurnar eftir fæðinguna grét ég reglulega, ástæðurnar voru ýmsar, ég trúði ekki að þetta hefði allt endað svona vel svo ég grét af gleði, ég grét af því mér fannst svo erfitt að skilja litla strákinn minn alltaf eftir á vökudeildinni og við Jói færum heim án hans, ég grét af því mér leið illa, ég grét af því ég var gjörsamlega búin á því. Þó ég skrifi hérna um allt það sem var erfitt og að ég hafi grátið heilan helling þá voru líka mjög margir góðir dagar. Mér fannst yndislegt að vera ólétt og verðlaunin voru þau allra bestu.

Ég hefði aldrei geta gert þetta án fólksins í kringum mig. Jói var gjörsamlega stoð mín og stytta í gegnum þetta allt, hann huggaði mig alltaf og kom mér í gott skap og aldrei varð hann pirraður á mér (hann sýndi það alla vega ekki). Alltaf gat ég hringt heim í foreldrana og blásið, vinir mínir voru yndislegur stuðningur og duglegir að peppa mig upp og þvílík hlýja sem við fundum fyrir frá fólkinu í kringum okkur sem sendi okkur kveðjur. Þetta var erfitt, þetta var æðislegt, þetta var allur tilfinningaskalinn. En vá hvað þetta var allt þess virði og ég get ekki ímyndað mér lífið án þessa yndislega drengs sem liggur núna við hliðina á mér, orðinn rúmlega mánaðar gamall. Alla vega get ég vel hugsað mér að gera þetta allt saman aftur.

Arna Ingimundardóttir – Skrifað 7. Desember 2012

Ingimundur Helgi - mynd tekin 2. febrúar 2013