Halldór Kjaran – fæðingarsaga
Þegar von er á barni eru ýmsar spurningar sem vakna upp og margt sem verðandi foreldrar spá og spekúlera. Þegar ég sá fyrir mér fæðingu sonar míns sá ég, eins og flestar aðrar verðandi mæður, fyrir mér að barnið fæddist fullburða og allt yrði sveipað bleiku skýi og ég ætlaði mér sko ekki að liggja lengi inni á spítalanum heldur fara heim sem fyrst með fallega nýfædda barnið mitt. Sú óskhyggja mín gekk ekki nærri því eftir. Hér kemur sagan af því þegar hann Halldór Kjaran fæddist.
MEÐGANGAN
Meðgangan gekk ágætlega til að byrja með. Ég þjáðist, eins og meirihluti óléttra kvenna, af morgunógleði fyrsta þriðjung meðgöngu. Ekki það þægilegasta í heimi en ég get þetta alveg – hugsaði ég. Á öðrum þriðjungi meðgöngu leið mér mjög vel, ég hafði helling af orku og stundaði mína vinnu af fullum krafti, en grindin var eitthvað farin að kvarta þegar ég var komin um 25 vikur á leið. Ég vann vinnu sem tekur sæmilega á líkamlega og ég fékk að minnka við mig í 75%. Að öðru leyti gekk allt vel.
Svo kom að ég fór í 25 vikna mæðraskoðun, þá mældist blóðþrýstingurinn skuggalega hár og í ljósi þess að móðir mín fékk meðgöngueitrun var ég sett á lyf og sagt að hætta að vinna og taka því rólega.
Mér fannst það nú ekkert alltof skemmtilegt en vonaði að lyfin myndu virka og þetta væri bara smá hindrun.
Blessaður blóðþrýstingurinn var mér ekki hliðhollur og vildi ekki lækka sama hvað svo ég var á endanum beðin að fara niður á Landspítala á Dagönn (Deild 22B) í rit og frekari skoðun. Þar var ég svo fastagestur næstu vikurnar ásamt því að taka lyfin mín samviskusamlega og á endanum náðist smá stjórn á blóðþrýstingnum.
Ég var farin að þekkja flestar ljósmæðurnar á 22B með nafni og þær mig. Ég mætti bara og sagði „Hæ! Ég er komin“ Mitt viðhorf var allan tímann að vera jákvæð og þetta hlyti nú að reddast.
BABB Í BÁTINN
Með því viðhorfi mætti ég mánudaginn 7. Júlí 2014 í mitt reglulega rit eftir að hafa byrjað daginn á blóðprufum, eins og vanalega. Ég var ósköp róleg og sat bara í ritinu og spjallaði við manninn minn um hitt og þetta. Ekkert ósvipað öllum hinum skiptunum; þegar þarna var komið var ég hætt að telja hversu oft ég hafði farið í rit.
Við tökum allt í einu eftir því að hjartslátturinn hjá krílinu dettur niður en nær sér aftur upp og þetta gerist nokkrum sinnum og okkur líst ekkert á þetta og ljósmóðirin sem sá um mig reynir að halda faglegri ró en tekst það ekki vel og hringir á lækni.
Þegar læknirinn kemur gengur mikið á og ég veit varla mitt rjúkandi ráð. Það er ein ljósmóðir að reyna að taka úr mér blóð og önnur að skoða ritið og læknirinn fær að heyra mína sögu og ég er spurð fullt af spurningum og svo er mér sagt að það sé verið að hugsa um bráðakeisara en báðar skurðstofurnar voru uppteknar á þessum tíma svo ég þyrfti að bíða.
Ég skalf úr stressi enda bara komin 32 og hálfa viku á leið! Ég átti alveg lágmark 5 vikur eftir, að mínu mati.
Á meðan ég beið lagaðist hjartslátturinn hjá krílinu og hélst nokkuð stöðugur svo í stað þess að fara í bráðakeisara var ég lögð inn. Enda skiptir hver dagur í móðurkviði máli.
Ástand mitt lagaðist þó ekki við að liggja inni á spítala og sónarskoðun sýndi að litli drengurinn minn væri ekki að stækka eins vel og hann ætti að gera og þar að auki var ég farin að finna verulega fyrir einkennum háþrýstingsins og meðgöngueitrunar.
Það var því tekin sú ákvörðun að ég færi í keisara að miðvikudagsmorgni 9. Júlí. En í stað þess að allt væri í panikki að þá fengum við maðurinn minn að skoða Vökudeildina þar sem sonur okkar myndi leggjast inn og við fengum fræðslu um hvernig keisarinn færi fram og við hverju við mættum búast.
Verandi skipulagsfrík þá róaði þessi fræðsla mig heilmikið niður og eina sem var ekki alveg 100% var hvort ég yrði svæfð eða mænudeyfð, það færi eftir blóðprufum.
STÓRA STUNDIN
Það er óneitanlega undarleg tilfinning að vakna og vita að barnið sitt muni fæðast á næstu klukkustundum. Mér leið pínu eins og þetta væri ekki að gerast. Allt í einu kemur ljósmóðir inn til okkar og segir „Jæja, það er komið að ykkur – gjörið svo vel“ Við röltum yfir á skurðstofuna og ég man hvað ég skalf mikið, bæði úr stressi og eftirvæntingu, meðan að yndislegt fólk undirbjó mig fyrir aðgerðina.
Tíminn var fljótur að líða og allt í einu heyrist grátur – litla barnið mitt grét! Ég var ekki undirbúin því og í minningunni var ég svo hissa að ég táraðist ekki sjálf. Maðurinn minn heldur því fram að við höfum bæði tárast. Miðað við magnið af lyfjum sem ég fékk bæði fyrir og eftir aðgerðina þá trúi ég honum frekar
Sonur minn var fæddur! 1430 grömm, tæpar 6 merkur og 43 cm kl 09:36 þann 9. Júlí!
Maðurinn minn fór að skoða hann og taka myndir og svo var litla krúttlingnum okkar rúllað framhjá í hitakassa og ég fékk aðeins að sjá hann áður en hann var færður yfir á Vökudeild. Mér var rúllað yfir á Vöknun þar sem ég jafnaði mig eftir aðgerðina. Ég var alveg rosalega mikið deyfð og nánast út úr heiminum af morfíni og öðrum „skemmtilegum“ verkjalyfjum.
Mér fannst þetta ótrúlega óraunverulegt að ég væri búin að eignast barn því barnið var á annarri deild, í hitakassa og ég hafði ekki fengið að halda á honum, horfa í augu hans né leyft honum að finna brjóstið eins og ég hafði lært á brjóstagjafanámskeiði aðeins nokkrum vikum fyrr.
Síðan kom að því að ég var nógu hress til að fá að sjá litla drenginn minn aðeins lengur en í 5 sekúndur! Mér var rúllað – í sjúkrarúminu- inn á Vökudeild og fékk að setja hendina inn í hitakassann og aðeins að snerta hann en bara smá. Fyrirburar eru með mjög viðkvæma og þunna húð; taugarnar eru ekki alveg þroskaðar svo þau geta upplifað snertingu sem sársauka.
Ákveðin í því að gera mitt allra besta til að litli molinn minn fengi bara það besta fór ég að mjólka mig á 3ja tíma fresti, líka á nóttunni. Ég, uppdópuð af morfíni, að bagsa við að halda mjaltasettinu á sínum stað meðan ég var við það að sofna um hánótt – mikið hefur það verið skondin sjón!
NÝTT LÍF
Eftir því sem heilsa mín lagaðist þá fór ég oftar yfir á „Vöku“ eins og Vökudeildin er kölluð í daglegu tali. Ég beið sko spennt eftir því að komast heim til mín, enda afskaplega heimakær. En blóðþrýstingurinn var ekki alveg á sama máli. Læknarnir dældu svoleiðis í mig blóðþrýstingslækkandi lyfjum að á endanum var ég komin í bullandi lágþrýsting. Þá leið mér verr heldur en nokkurn tíman áður með háþrýsting!
Ég var á spítalanum í 10 daga! Ég verð að viðurkenna að ég var að verða galin þessa síðustu daga! Mér gekk vel að jafna mig eftir keisaraskurðinn og var farin að geta labbað yfir á Vöku og til baka. Maðurinn minn gisti sem betur fer allar nætur með mér á spítalanum. Týpískur dagur byrjaði þannigi að við vöknuðum saman og hann fór í vinnuna. Ég borðaði, mjólkaði og fór yfir á Vöku nokkrum sinnum yfir daginn. Þess á milli var blóðþrýstingurinn mældur og ég fékk lyfin mín.
LITLA HETJAN MÍN
Það er ótrúlega skrýtið að eignast fyrirbura. Ef allt hefði verið með felldu hefði ég á þeim tíma farið tvisvar á fæðingarnámskeið (Hah!) og við maðurinn minn ætluðum að fara á ættarmót helgina eftir að snáðinn fæddist. Öll plön fóru úr skorðum.
Hann var samt svo ótrúlega fullkominn, þótt hann væri lítill. Hann sýndi það strax frá byrjun að hann væri hörkutól og andaði alveg sjálfur frá byrjun. Hann þurfti einungis smá síflæði af lofti í lungun (Cpap) í nokkra daga en það var bara til að minna hann á að anda. Hann var með mjög góða súrefnismettun og þurfti aldrei að fara í öndunarvél eins og ég hafði séð fyrir mér. Ég vil meina að það sé sterunum að þakka sem ég fékk vikunni áður.
Hann léttist eins og öll börn og fór niður í 1320 grömm. Hann fékk smá gulu og þurfti að fara í ljós í nokkra tíma en hann rétti fljótt úr kútnum; sérstaklega eftir að hann fékk fyrstu brjóstamjólkina. Mjólkin kom ekki strax hjá mér, það var ekki fyrr en á 3. eða 4. degi sem hún kom og þá í takmörkuðu magni. Við foreldrarnir lærðum smám saman að annast hann og við fengum frábærar leiðbeiningar og aðstoð eftir þörfum frá starfsfólkinu á Vöku.
Það að vera með fyrirbura á Vöku er dálítið eins og að keppa í undarlegu afbrigði af hindrunarhlaupi og maraþoni. Það er löng leið framundan og nóg af hindrunum á leiðinni. Allt gerist í litlum hænuskrefum. Bless æðaleggur; bless Cpap; hitastigið í kassanum lækkað; bless hitakassi – halló vagga! Bless H1 og H2 – halló Vinstri!
Einn af hápunktunum var þegar við gátum farið að æfa brjóstagjöfina. Þar sem hann var svo lítill entist hann ekki lengi og náði litlu sem engu – en þetta var mikilvæg æfing! Næstu dagar og vikur fóru í að æfa brjóstagjöfina þegar hann var í stuði og einnig að gefa honum mjólk í pela til að æfa sogið.
HEIMKOMAN
Maðurinn minn var þarna enn í fullri vinnu og dagarnir okkar einkenndust af því að ég mjólkaði, borðaði og dundaði mér hér heima þar til ég fór á Vöku eftir hádegið, hann kom svo beint þangað þegar hann var búinn í vinnunni og við sinntum syni okkar saman þangað til við fórum og fengum okkur kvöldmat og svo fórum við kannski heim að hvíla okkur smá og mættum svo jafnvel í síðustu gjöf fyrir nóttina.
Við foreldrarnir reyndum að stilla vonum okkar í hóf og vorum búin að ákveða það í huganum að hann kæmi ekkert heim fyrr en kannski við það sem hefði átt að vera 38 vikna meðgöngulengd. Við vorum því ekkert að spá í að gera heimilið tilbúið fyrir hann strax. Satt best að segja höfðum við varla tíma til þess því við vorum ekki mikið heima hjá okkur nema bara til þess að sofa.
Það var því smá sjokk föstudaginn 1. Ágúst að fá að vita að við gætum farið með hann í gistingu strax þá um kvöldið og mögulega myndi hann útskrifast á sunnudeginum eða mánudeginum. Gistingin var þannig að við foreldrarnir fengum herbergi á spítalanum og vorum þar með Halldór og sáum algjörlega um hann sjálf, en við höfðum hjúkkurnar á næstu grösum til að aðstoða eftir þörfum.
Gistingin gekk mjög vel og það voru þreyttir en sælir foreldrar sem fóru heim með drenginn sinn Sunnudaginn 3. Ágúst. Hann fékk góða skoðun og útskrifaðist 1934 grömm, tæpar 8 merkur og 45 cm. Meðan stór hluti þjóðarinnar var að djamma frá sér allt vit var okkur alveg sama um allt; við horfðum dáleidd á litla drenginn okkar í vöggunni sinni.
Síðan þá hefur allt gengið framar björtustu vonum. Þegar þetta er skrifað er Halldór 4ra mánaða, 11 vikna í leiðréttum aldri. Hann er tæp 5 kíló og 57 cm og þroskast vel.