Við maðurinn minn erum svo heppin að eiga tvo yndislega heilbrigða og flotta stráka. Annar þeirra er fæddur í desember 2010 og hinn í september 2013. Tvær mjög svo ólíkar meðgöngur og fæðingar. Það eina sem þeir bræður deila af komu sinni í þennan heim er að þeir mættu báðir allt of snemma.
Eldri sonur okkar er fæddur 31. desember eftir 29 vikur og 6 daga. Meðgangan gekk vel framan af. Mér var óglatt fram að 12. viku en þá hvarf hún eins og dögg fyrir sólu. Ég fann í raun ekki fyrir neinum óþægindum fyrr en undir enda meðgöngunnar. Þá var ég farin að verða óvenju þreytt og að mér fannst þung á mér. Farin að finna fyrir óþægindum og þrýstingi við rifbeinin hægra megin sem ágerðist með hverjum deginum. Ég hugsaði oft að mér fannst ég heldur snemma vera að fá einhverja svona kvilla og fannst að þetta ætti að fylgja meira seinustu vikunum (án þess þó að vita í raun nokkuð um það því þetta var jú fyrsta barn).
29. desember byrjaði mér að líða eitthvað illa seinni partinn sem ágerðist með kvöldinu. Ég var ekki farin að finna neina sérstaka verki en leið bara eitthvað illa án þess að átta mig á því af hverju. Ég ákvað að best væri að reyna að fara að sofa og vonast til að líða betur daginn eftir. Ég aftur á móti gat ekki sofnað og fór að líða alltaf verr og verr og byrja svo að finna fyrir einhverjum verkjum. Þar sem fyrirburafæðing var eitthvað sem gat ekki verið fjarri huga mínum datt mér ekki í hug að eitthvað gæti verið í uppsiglingu. Maðurinn minn var sofnaður og ég þráast eitthvað við að vekja hann og láta hann vita að mér liði ekki vel. Hugsaði að ég væri nú bara móðursjúk og þyrfti bara aðeins að slaka á. Að lokum gafst ég þó upp og vakti manninn minn og við sátum heillengi uppi í rúmi að meta stöðuna. Byrjuðum að prófa að taka tímann á milli verkja en þeir voru alltaf mjög svipaðir og versnuðu ekki þannig að við vildum ekki trúa því að eitthvað gæti verið að gerast. Við biðum því fram undir morgun áður en við ákváðum að hringja í ljósuna okkar og spyrja ráða. Hún hringdi upp á spítala fyrir okkur og þau vildu auðvitað fá okkur upp eftir og kíkja á mig.
Þegar ég kom svo upp á spítala og þau skoðuðu mig kom í ljós að fæðingin var farin af stað og ég var komin með 2-3 í útvíkkun. Ég ætlaði ekki að trúa þessu, þetta var allt svo óraunverulegt og svo langt í frá það sem ég var búin að sjá fyrir mér með þessa meðgöngu og fæðingu. Ætli við séum ekki allar búnar að búa til smá mynd í hausnum á okkur um hvernig þetta mun allt verða og þetta var svo sannarlega ekki sú mynd. Við tók tveggja sólahringa rúmlega þar sem reynt var að stoppa fæðinguna. Ég fékk legg í æð með lyfinu til að reyna að stoppa fæðinguna og sterana fyrir lungun á barninu, sýklalyf í æð og þess háttar sem varúðarráðstöfun en aldrei dróg úr verkjunum neitt að ráði. Þetta voru erfiðir tveir sólahringar þar sem lítið var sofið. Ég mátti helst ekki standa upp og fara á klósettið og ekki mátti ég heldur fá neina deyfingu, aðeins verkjalyf sem gerðu lítið gagn. Mér leið mjög illa en barninu leið vel þannig að það var reynt að bíða eins og hægt var.
Þegar fór að nálgast miðnætti aðfaranótt gamlársdags byrjuðu svo verkirnir fyrir alvöru og það er nokkuð ljóst að þessu varð ekki frestað lengur. Það var búið að undirbúa okkur nokkuð vel. Við vorum búin að tala við barnalækni sem sagði okkur hverju við gætum átt von á, fengum að fara upp og skoða vökudeildina og búið að segja okkur að við myndum líklega ekki fá drenginn í fangið þegar hann fæddist og ekki fengi maðurinn minn að klippa á naflastrenginn eða nokkuð sem fylgir hinum „hefðubundu“ fæðingum. Við vorum því í raun búin að undirbúa okkur undir það versta ef svo mætti segja án þess að endilega hafa áhyggjur af því að þetta myndi enda eitthvað á versta veg. Þrátt fyrir að allt ferlið var komið svona langt og við vissum að stutt væri að frumburðurinn kæmi í heiminn var ég samt ekki ennþá að meðtaka það að þetta væri í alvörunni að gerast. Fannst ég pínu vera föst í einhvejrum draumi eða martröð sem ég myndi senn vakna af.
Þetta var auðvitað blákaldur veruleikinn og sonurinn kom í heiminn rétt fyrir 2 um nóttina eftir ca. 45 mínútur að rembingi. Það var heilt læknateymi inn á stofunni þegar á þessu stóð og um leið og hann kom út tóku þeir hann og skoða og maðurinn minn fékk (honum til mikillar gleði) að klippa á naflastrenginn. Eftir að þeir hafa skoðað hann var honum skutlað bókstaflega í fangið á mér. Ég varð svo hissa að fá hann þar sem ég átti ekki von á því að ég hélt hálf skringilega á honum og skipa manninum mínum að taka mynd strax. Þeir tóku hann svo aftur, skoðuðu hann enn frekar og settu hann svo aftur í fangið á mér. Það er ekki hægt að segja annað en að þessar fyrstu myndir sem teknar voru af okkur mæðginum eru frekar skondnar þar sem ég var hálf hissa haldandi á þessu litla kríli og ekki alveg að vita hvað á mig stóð veðrið. Eftir þetta tóku þeir hann og fóru með hann upp á vöku og maðurinn minn fékk að fylgja með.
Ísak Dóri vó 1682 gr. og var 43 cm þegar hann fæddist. Hann dvaldi á vökudeildinni í tæpar 9 vikur. Veran þar var eins og gefur að skilja mikill rússíbani en gekk að mestu leyti vel. Hann þurfti aldrei að fara í öndunarvél og gekk vel að venja hann af súrefninu en hann fékk þó smá bakslag undir enda dvalarinnar og hætti reglulega að anda þá sérstaklega þegar hann var að drekka sem leiddi til þess að heimför dróst aðeins. Hann var með mikið bakflæði og ældi mikið. Eftir heimkomu tóku við margar svefnlausar nætur en hann var þá í rútínunni að vakna á ca. 3 tíma fresti. Mér gekk ágætlega að koma honum á brjóst en hann fékk alltaf pela samhliða brjóstagjöf en ég átti nóg af mjólk í frysti þannig að hann var lengi bara á brjóstamjólk. Hann dafnaði mjög vel.
Þegar ég varð ólétt af seinni stráknum okkar var ég óneitanlega stressuð út af fyrri sögu. Þessi meðganga var mun erfiðari og mér leið mun verr. Mér var hryllilega flökurt fram yfir 16. viku en þá lagaðist það aðeins en hætti þó aldrei alveg. Ég var byrjuð að finna nokkuð mikið fyrir grindinni og hafði áhyggjur af því hvernig það myndi þróast. Ég var misslæm og suma daga átti ég erfitt með gang á meðan aðra fann ég lítið sem ekkert fyrir verkjum. Sami verkurinn við rifbeinin byrjaði líka að trufla mig en ég fékk aldrei neina skýringu á því af hverju hann stafaði.
Læknirinn minn sagði að ég það væru ekkert endilega meiri líkur á því að ég eignaðist annan fyrirbura. Fyrri fæðing var stimpluð sem óútskýrð fyrirburafæðing en ég var þó sett í áhættumeðgöngu á landsspítalanum þar sem fylgst var extra vel með mér. Á 12 viku fékk ég svo extra hormón sem hafa reynst vel fyrir konur sem hafa eignast fyrirbura án skýringa. Þegar líða tók á meðgönguna varð ég þó alltaf stressaðri og stressaðri. Ég í raun trúði því ekki að ég myndi eignast annan fyrirbura og var viss um að allar þessar áhyggjur væru til einskis en það var samt erfitt að losna við þær. Á 21. viku var ég byrjuð að finna fyrir samdráttum sem óneitanlega stressuðu mig. Ég fór upp á spítala og þær skoðuðu mig í bak og fyrir, mældu leghálsinn hjá mér og allt leit eðlilega út. Eftir þetta fór ég í vikulega skoðun og fékk að hitta sálfræðing upp á spítala sem hjálpaði mér mikið. Ég ætlaði mér að ná að slaka á og ekki láta fyrri reynslu eyðileggja fyrir mér meðgönguna og koma í veg fyrir að ég gæti notið hennar.
Þegar ég fór svo í skoðun komin 28 vikur og 1 dag og þær sögðu mér að allt líti svo ljómandi vel út að ég gæti í raun bara komið aftur næst eftir 3 vikur hugsaði ég að kannski væri bara tími til komin að reyna að slaka aðeins á. Ég fór í þessa skoðun á föstudegi og ákvað að fara upp í bústað með vinkonum mínum á laugardeginum fram á sunnudag. Sú ferð gekk bara vel og án vandræða og við komum heim um miðjan daginn á sunnudeginum. Ég fór svo að sofa um kvöldið en næ ekki að sofna almennilega og byrja að líða eitthvað illa. Ótrúlegt en satt þá kikkar inn sama afneitunin um að eitthvað sé að gerast og ég datt aftur í að ég væri bara móðursjúk og þurfi að læra að slaka á. Vakti ekki manninn minn strax og fór frekar fram í stofu að vandræðast eitthvað, þetta var í raun algjört „deja vu“ án þess að ég vildi viðurkenna það.
Sem betur fer ákvað ég nú fljótlega að þetta væri bull í mér og betra væri að láta tékka á mér og vakti því manninn minn og við hringdum upp á spítala og þær sögðu mér auðvitað að koma strax. Við vorum ekki alveg búin að undirúa hvað við ætluðum að gera við eldri strákinn okkar þegar ég færi af stað en sem betur fer náðum við að vekja bróður mannsins míns sem kom fljótt til okkar. Á leiðinni upp á spítala herðast verkirnir mjög en þarna er klukkan ca. fjögur um nóttina. Ég hélt samt áfram í þá von að þetta væri eitthvað allt annað en fæðingin væri komin af stað. Þegar við svo komum upp eftir og þau skoðuðu mig og það er aftur sama sagan, fæðing komin af stað og ég komin með 2-3 í útvíkkun brotnaði ég saman. Ég var ekki að trúa því að þetta væri að gerast aftur og var svo engan vegin tilbúin að takast á við allt ferlið sem ég vissi að væri framundan.
Í þetta skiptið gekk allt mun hraðar fyrir sig, þeir gáfu mér aftur drippið og sterana en verkirnir héldu bara áfram að herðast. Ég fékk þó mænudeyfingu í þetta skiptið og þvílík himnasending, þau vildu líka endilega gefa mér hana ef til þess kæmi að ég þyrfti að fara í keisara en fyrst þegar ég kom upp eftir er drengurinn í höfuðstöðu og því átti ég að geta fætt hann. Þegar byrjaði svo allt í einu að blæða hjá mér og þær sprengja belginn til að skoða legvatnið nánar sjá þær að hann er búinn að snúa sér í sitjandi stöðu og ekkert annað í stöðunni en að taka hann með keisara, sem mér þótti mjög miður. Mér var því rúlluð mjög fljótlega inn á skurðstofu þar sem ég fékk meiri mænudeyfingu og undirbúin undir keisara. Þegar læknirinn var að ljúka við að gefa mér deyfinguna datt hjartslátturinn niður hjá barninu og þau þurftu að skera mig strax (vanalega tekur um 20 mínútur fyrir deyfinguna að virka alveg). Maðurinn minn var því sendur fram og ég var svæfð strax. Ég man hvað mér fannst þetta hrikalega erfitt og þótti leiðinlegt að ég myndi missa af þessu öllu. Það var sem betur fer einhver sem hélt í höndina á mér sem var ótrúleg huggun þegar þau voru að vinna í því að svæfa mig en tárin láku niður kinnarnar því ég vissi í raun ekkert í hvað stefndi. Áður en ég vissi af var ég sofnuð og næsta sem ég man var þegar ég ranka við mér rúmum 2 tímum seinna. Brosandi hjúkka stóð yfir mér og óskaði mér til hamingju með soninn og þá vissi ég að hann væri í lagi eins langt og það náði. Hjalti var þá akkúrat frammi en hann kom fljótlega inn og sagði mér hvað hann var þungur en ég var mjög forvitin að vita hversu stór hann var.
Emil Nói var 1415 gr og 41 cm þegar hann fæddist eftir 28 vikur og 4 daga. Hann var mjög veikur til að byrja með og þurfi að fara í öndunarvél og fá dren í vinstra lungað þar sem það féll saman og á tímabilli leit út fyrir að hann yrði líka á fá dren hægra megin. Hann var allur marinn á bakinu líklega eftir að hafa legið furðulega í grindinni og þurfti því extra ljósatíma til að brjóta það niður. Þegar lungað hafði jafnað sig og hann losnað úr öndunarvél fóru hlutirnir að ganga betur og hann stóð sig eins og hetja með smá hikstum hér og þar. Við dvöldum rúmar 9 vikur á vökudeildinni með öllu yndislega fólkinu þar sem hjálpaði okkur auðvitað mikið. Þekktum að sjálfögðu ansi mörg andlit frá fyrri viðveru sem gerði þetta allt auðveldara. Þrátt fyrir að vita að framundan var langt og strangt ferli þá var líka ágætt að þekkja til og kunna aðeins á hlutina. Brjóstagjöfin gekki ekki eins vel í þetta skiptið og gafst ég upp eftir rúma 5 mánuði eftir endalaus sár og mikla pínu og kvöl. Ég hafði þó mjólkað vel framan af og átti birgðir í frysti þannig að hann gat fengið brjóstamjólk aðeins áfram.
Í dag eru þeir bræður flottir og heilsuhraustir. Það er ekki að sjá á þeim að þeir séu fæddir fyrir tímann. Ísak Dóri er að verða fjögurra ára gamall þegar þetta er skrifað, höfðinu hærri en margir jafnaldrar sýnir og hörkuduglegur. Emil Nói er 14 mánaða og gefur bróður sínum ekkert eftir.
Þeir hafa auðvitað fengið þessar almennu pestir og hefur sá eldri verið svolítið eyrnabólgubarn og þurft á pústi að halda annað slagið, og auðvitað er horið staðalbúnaður hjá þeim báðum en þeir eru ekkert verri en önnur börn í kringum okkur sem fædd eru eftir fulla meðgöngu. Við erum ótrúlega heppin með þá bræður og vitum það vel og erum því óendanlega þakklát.
Læknirinn sem tók á móti Emil Nóa greindi mig með leghálsbilun og sagði að ef við ætluðum að eignast fleiri börn þýddi það saum og mögulega rúmlegu. Það verður því ekki nema að vel ígrunduðu máli að við ákveðum að fara út í frekari barneignir.