Viðbrögð foreldra við fæðingu fyrirbura

Það getur verið erfið reynsla fyrir foreldra að sjá litla barnið sitt í fyrsta sinn, lítið og veikburða tengt við vélar og tæki á nýburagjörgæslunni. Í rannsókn sinni ræddi Jónína Einarsdóttir (1,2) við foreldra barna með fæðingarþyngd undir 1000 grömm. Viðbrögð foreldranna við að sjá barnið sitt í fyrsta sinn voru misjöfn.

Sumum þótti barnið helst minna á fóstur eða fuglsunga og nokkrir töldu sig ekki finna fyrir verulegri foreldratilfinningu gagnvart barninu. Margir nefndu að mun léttara hefði verið að sjá barnið í annað sinn og að útlit þess hafi vanist mjög fljótt. Aftur á móti fannst sumum foreldrum barnið sitt fallegast í heimi og svo sannarlega þeirra barn. Sumir foreldrar voru bjartsýnir og þótti barnið sitt hraustlegt, en viðbrögð annarra foreldra einkenndust af vonleysi og skynjun á barninu sem hjálparvana.

Sumir foreldranna voru hissa á hamingjuóskum starfsfólks þegar barnið þeirra var nýfætt, en fannst þó ákveðin bjartsýni felast í þeim óskum. Ættingjar og vinir foreldranna í rannsókninni voru oft á tíðum tregir til að gefa sængurgjafir. Margar mæðurnar tóku sérstaklega nærri sér að fá ekki gjafir fyrir barnið og túlkuðu það þannig að aðrir hefðu ekki trú á að barnið þeirra myndi lifa. Algengar sængurgjafir voru táknræns og trúarlegs eðlis, til dæmis kerti, blóm eða kross en sjaldgæft var að fólk fengi föt á barnið (1).

Nánar er fjallað um tilfinningar foreldra og foreldrahlutverkið undir liðnum
foreldrahlutverkið á nýburagjörgæslunni.

Heimildir
  1. Jónína Einarsdóttir. (2005). Máttug mannabörn fædd fyrir tímann. Í „Ungir Íslendingar í ljósi vísindanna“: Erindi flutt á málþingi umboðsmanns barna og háskólarektors 5. nóvember 2004 (bls. 269-276). Reykjavík: Háskólaútgáfan.
  2. Jónína Einarsdóttir. (2007). Parents‘ first encounter with their preemie: distance or devotion? Í E. V. Donger og R. Kutalek (Ritstj.), Facing Distress: Distance and Proximity in Times of Illness (bls. 104-116). Vienna: LIT-verlag.