Ef einhver nákominn ykkur missir barnið sitt

Að missa barn er mjög erfið lífsreynsla og missir fyrirbura við eða stuttu eftir fæðingu er jafn mikið áfall og missir fullburða barns. Þegar barn deyr eftir meira en 22 vikna meðgöngu er um andvana fæðingu að ræða en ekki fósturlát. Sársaukafullt getur verið fyrir foreldra, sem þurft hafa að jarða fullskapað barn að heyra reynslu sinni líkt við fósturlát snemma á meðgöngu.

 

Ef foreldrar missa einn af fjölburum sínum eru þeir staddir í þeim sporum að syrgja barn á sama tíma og þeir annast um og mynda tengsl við annað barn eða börn á sjúkrahúsinu, auk þess að hafa áhyggjur af því að missa annað barn. Rannsóknir hafa sýnt að missir eins af fjölburum er foreldrum jafn mikið áfall og einburamissir (1).

 

Ef foreldrar nákomnir ykkur missa barnið sitt er mikilvægt að sýna þeim samúð og láta vita að þið séuð til staðar fyrir þá. Ekki reyna að draga úr atburðinum með því að segja eitthvað á borð við, „að betra hafi verið fyrir barnið að deyja núna en ekki seinna“, eða „að barnið hefði eflaust orðið það mikið fatlað að þetta hefði verið fyrir bestu“. Það hjálpar ekki og getur sært foreldrana. Viðurkennið sorg þeirra og missi og sýnið þeim stuðning (1). Þið gætuð hjálpað foreldrunum með því að bera fréttirnar af andláti barnsins áfram til annarra sem þau umgangast og þannig fyrirbyggt að þau lendi í óþægilegum aðstæðum seinna meir.

 

Móðir sem missti fyrirburann sinn sagði þetta:

„Flestir vinir okkar voru til staðar fyrir okkur og hjálpuðu hvenær sem þeir gátu, eða hlustuðu á okkur tala um barnið okkar. En ég tók nærri mér að sumir vinir mínir hringdu ekki í mig eftir að sonur minn dó. Í alvöru, það er ekki svo erfitt að segja: mér þykir leitt hvað gerðist, er eitthvað sem ég get gert fyrir ykkur?“ (2).

 

 

 

 

Heimildir

  1. Gardner, S. L. og Hauser, M. M. (2006). Grief and perinatal loss. Í G. B. Merenstein og S. L. Gardner (Ritstj.),Handbook of Neonatal Intensive Care (6. útgáfa, bls. 914-952). St. Louise: Mosby.
  2. Green, K. A. (2002). Difficult choices, gentle good-byes. Í J. Zaichkin (Ritstj.), Newborn Intensive Care: What Every Parent Needs to Know (2. útgáfa, bls. 241-266). California: NICU INK Book Publishers.

Félagið

Félag fyrirburaforeldra var stofnað árið 2008.

Félagið er ætlað öllum fyrirburaforeldrum til að hittast og ræða saman og til að gæta hagsmuna fyrirbura og foreldra þeirra.

Væntanlegt er hér á vefinn upplýsingar um félagið og lög þess og hvað helst sé á dagskrá hjá félaginu hverju sinni.

Aðalfundur verður haldinn snemma árs og eru áhugasamir beðnir um að fylgjast auglýsingu hér á vefnum og á facebook síðu fyrirburaforeldra.

Um síðuna

Umsjónarmaður síðunnar er Drífa Baldursdóttir lýðheilsufræðingur og fyrirburamóðir. Hægt er að hafa samband í gegnum vefpóst á drifa@fyrirburar.is

Heimasíðan er unnin af Drífu Baldursdóttur fyrirburamóður. Sambýlismaður hennar Sveinbjörn Hafsteinsson og fyrirburamamman Baddý Sonja Breidert sáu um tæknilegu hliðina við uppsetningu heimasíðunnar.

Um verkefnið

Fræðsluefnið sem er á síðunni vann Drífa sem meistaraverkefni í Lýðheilsufræðum við Háskólann í Reykjavík árið 2009, undir leiðsögn dr. Geirs Gunnlaugssonar prófessors við skólann og með samvinnu við yfirmenn Vökudeildar Barnaspítala Hringsins, Þórð Þórkelsson yfirlækni og Ragnheiði Sigurðardóttur deildarstjóra.
Þróunarverkefnið um gerð vefsíðunnar fyrirburar.is hlaut styrk frá Nýsköpunarsjóði Námsmanna árið 2009.

Þessi heimasíða er tileinkuð Hildi Arneyju dóttur Drífu sem kom í heiminn 11 vikum of snemma, því án hennar innkomu í líf hennar hefði þetta verkefni aldrei orðið að veruleika.