Fyrirburafæðing

Fyrirburafæðingar geta verið áhættusamar og þarf að huga að mörgu þegar þær eiga sér stað. Fyrirburar geta fæðst á hefðbundinn hátt um fæðingarveg eða með keisaraskurði, eftir því hvað hentar hverju sinni (1). Í sumum tilvikum er keisaraskurður ákveðinn fyrirfram, til dæmis vegna staðsetningar fylgjunnar eða legu barnsins/barnanna. Í öðrum tilvikum þarf að grípa til bráðakeisara þegar hættuástand uppgötvast, til dæmis við fylgjulos eða ef líðan móður eða barns er slæm. Einnig geta komið upp áhættuþættir við fyrirburafæðingar líkt og í öðrum fæðingum þar sem ljóst verður að fæðing verði að enda í bráðakeisara (2).

Við barnsfæðingu hafa hríðir og samdrættir áhrif á allt í leginu, þar á meðal barnið. Fullvaxta börn þola það en fyrirburar geta átt í vandræðum og fylgjast verður því með hjartslætti barnsins. Því eru konur í fyrirburafæðingu ekki jafn frjálsar ferða sinna og þurfa oftar en ekki að vera rúmfastar alla fæðinguna. Vegna sýkingarhættu eða meðferðar við sýkingu fá margar konur sýklalyf í æð í fæðingunni. Höfuð fyrirbura er minna og viðkvæmara en höfuð fullvaxta barna og þess vegna verður einnig að gæta að því álagi sem höfuðið verður fyrir. Þær deyfingar sem í boði eru í fæðingu geta sumar haft áhrif á barnið, annað hvort í eða eftir fæðinguna og er meiri áhætta fyrir fyrirbura en fullburða börn.

Huga þarf að ýmsum atriðum í þessu samhengi og því er fylgst sérstaklega vel með fyrirburafæðingum og þá þurfa sérfræðingar að vera viðstaddir. Ljósmæður og fæðingarlæknar sem taka á móti fyrirburum eru vel meðvituð um áhættuna sem fylgir fyrirburafæðingum (3,4).

Þegar fyrirburi fæðist á Landspítalanum í Reykjavík fer fæðingin fram á fæðingargangi eða skurðstofu sem þar er. Viðstaddir eru ljósmóðir og fæðingarlæknir, auk nýburalæknis og aðstoðarfólks sem hjálpar til við fæðinguna og aðhlynningu nýburans að henni lokinni. Margir heilbrigðisstarfsmenn geta komið við sögu og allir hafa þar hlutverki að gegna við að tryggja bestu meðferð fyrir móður og barn.

Heimildir:

  1. Ingibjörg Georgsdóttir og Atli Dagbjartsson. (2003). Litlir fyrirburar á Íslandi. Lífslíkur og fötlun. Læknablaðið, 89, 299-302.
  2. Pillitteri, A. (2003). Maternal & Child Health Nursing: Care of the Childbearing & Childrearing Family (4. útgáfa). Philadelphia: Lippincott Williams og Wilkins.
  3. Lepley, M. og Gogoi, R. G. (2006). Prenatal enviroment: effect on neonata outcome. Í G. B. Merenstein og S. L. Gardner (Ritstj.), Handbook of Neonatal Intensive Care (6. útgáfa, bls. 11-36). St. Louise: Mosby.
  4. Zaichkin, J. (2002a). Expecting the unexpected. Í J. Zaichkin (Ritstj.), Newborn Intensive Care: What Every Parent Needs to Know (2. útgáfa, bls 1-14). California: NICU INK Book Publishers.