Lífslíkur barnsins
Læknar og hjúkrunarfræðingar upplýsa foreldra alltaf um raunhæfar lífslíkur og batahorfur. Oft er það gert fyrir fæðinguna og svo eftir mat á ástandi barnsins. Foreldrarnir eru upplýstir um mögulega lífshættu barnsins, sé það fætt löngu fyrir tímann. Lífslíkurnar aukist á hinn bóginn með hverjum degi meðgöngunnar og eftir fæðinguna hvern dag sem barnið dvelur á nýburagjörgæslunni. Hér er upplýsingar um lífslíkur fyrirbura.
Ef barnið á litla lífsvon
Batahorfur og lífslíkur flestra fyrirbura eru með ágætum. Illu heilli eru samt alltaf einhver börn sem ekki er hægt að bjarga. Í sumum tilvikum er ekkert sem getur komið í veg fyrir að barnið deyi ef fæðing er löngu fyrir tímann og/eða barnið fárveikt. Þá gæti komið upp sú staða að ákveðið væri að veita ekki eða hætta að veita læknismeðferð (Green, 2002).
Hlutverk lækna er að lækna en ekki valda skaða, hvorki fyrir barn né foreldra þess. Viðmiðið er að veita ekki læknismeðferð þegar hún er talin valda meiri skaða en það að veita ekki meðferð (Vilhjálmur Árnason, 2003). Að veita ekki læknismeðferð er ekki það sama og að veita ekki meðferð og umönnun. Reynist lífslíkur barnsins hverfandi beinist meðferðin að því að lina sársauka jafnt barns sem foreldra og láta þeim líða eins vel og mögulega er (Swaney, English og Carter, 2006). Þegar kemur að kveðjustund fær barnið að vera í fangi foreldra sinna og geta þeir fengið að ráða hvernig þessari erfiðu stund er háttað. Þeir eru hvattir til tjá óskir sínar og langanir við starfsfólk. Það getur verið mjög mikilvægt fyrir foreldra að eiga þessa dýrmætu kveðjustund með barninu sínu (Green, 2002; Swaney o.fl., 2006). Bókin Að missa barnið sitt er sérstaklega skrifuð til foreldra sem misst hafa barnið sitt á meðgöngunni eða stuttu eftir fæðingu (Gunnar Biering, 2000). Samtökin Litlir englar eru ætluð öllum foreldrum sem misst hafa börn sín, einnig þeim sem misst hafa fóstur. Þar gefur að líta efni til fræðslu og stuðnings og einnig er þar umræðuvettvangur þar sem foreldrar geta deilt reynslu sinni með öðrum foreldrum (Litlirenglar.is, 2002.). Á spjallsíðu Draumabarna (á.á.) er einnig að finna „læstan“ stuðningshóp er nefnist Englarnir okkar. Til að fá aðgang þarf fólk að skrá sig og síðan að fara í „stillingar“ og velja þar „skráning“ í læsta hópa. Þar undir er hópurinn Englarnir okkar. Auk þess eru hægt að leita stuðnings á spjallsíðu fyrirburaforeldra.
Ef einhver nákominn ykkur missir barnið sitt
Að missa barn er mjög erfið lífsreynsla og missir fyrirbura við eða stuttu eftir fæðingu er jafn mikið áfall og missir fullburða barns. Þegar barn deyr eftir meira en 22 vikna meðgöngu er um andvana fæðingu að ræða en ekki fósturlát. Sársaukafullt getur verið fyrir foreldra, sem þurft hafa að jarða fullskapað barn að heyra reynslu sinni líkt við fósturlát snemma á meðgöngu. Ef foreldrar missa einn af fjölburum sínum eru þeir staddir í þeim sporum að syrgja barn á sama tíma og þeir annast um og mynda tengsl við annað barn eða börn á sjúkrahúsinu, auk þess að hafa áhyggjur af því að missa annað barn. Rannsóknir hafa sýnt að missir eins af fjölburum er foreldrum jafn mikið áfall og einburamissir (Gardner og Hauser, 2006).
Ef foreldrar nákomnir ykkur missa barnið sitt er mikilvægt að sýna þeim samúð og láta vita að þið séuð til staðar fyrir þá. Ekki reyna að draga úr atburðinum með því að segja eitthvað á borð við, „að betra hafi verið fyrir barnið að deyja núna en ekki seinna“, eða „að barnið hefði eflaust orðið það mikið fatlað að þetta hefði verið fyrir bestu“. Það hjálpar ekki og getur sært foreldrana.
Viðurkennið sorg þeirra og missi og sýnið þeim stuðning (Gardner og Hauser, 2006). Þið gætuð hjálpað foreldrunum með því að bera fréttirnar af andláti barnsins áfram til annarra sem þau umgangast og þannig fyrirbyggt að þau lendi í óþægilegum aðstæðum seinna meir.
Móðir sem missti fyrirburann sinn sagði: „Flestir vinir okkar voru til staðar fyrir okkur og hjálpuðu hvenær sem þeir gátu, eða hlustuðu á okkur tala um barnið okkar. En ég var undrandi og vonsvikin yfir því að sumir vinir mínir hringdu ekki í mig eftir að sonur minn dó. Í alvöru, er svona erfitt að segja, mér þykir leitt hvað gerðist, er eitthvað sem ég get gert fyrir ykkur?“ (Green, 2002, bls. 255).