Nýburalæknisfræðin fór að þróast sem sérgrein upp úr 1950. Á fyrri hluta síðustu aldar var byrjað að gefa fyrirburum súrefni til að hjálpa þeim að anda. Eftir síðari heimstyrjöldina voru nýir loftheldir hitakassar kynntir til sögunnar og börnunum gefið mikið súrefni inn í kassana. Í kjölfarið urðu margir fyrirburar blindir vegna fyrirburaaugnsjúkdóms (e. retinopathy of prematurity – ROP). Það var þó ekki fyrr en um 1954 sem uppgötvaðist að þessi mikla súrefnisgjöf væri að valda blindunni. Ný tækni kom fram á sjöunda áratugnum til þess að mæla súrefnismagn á nákvæmari hátt og í kjölfarið batnaði lifun og tíðni augnsjúkdómsins minnkaði. Í dag er sjúkdómurinn mun sjaldgæfari og verður nær eingöngu vart meðal mjög smárra fyrirbura (1).
Ein helsta dánarorsök fyrirbura á árum áður var öndunarfærasjúkdómur sem nefndur er glærhimnusjúkdómur (e. hyaline memrane disease/ respiraory distress syndrom – RDS). Árið 1957 sýndi Mary E. Avery fram á að sjúkdómurinn stafar af skorti á lungnablöðruseyti (e. Pulmonary surfact) (2) og við tóku áratuga rannsóknir og þróanir um hvernig hægt væri að gefa fyrirburum lungnablöðruseyti á áhrifaríkan hátt.
Árið 1963 átti forseti Bandaríkjanna, John F. Kennedy og Jaqueline kona hans, fyrirbura eftir 35 vikna meðgöngu sem lést af völdum glærhimnusjúkdóms. Í kjölfar þess beindist athyglin að fyrirburum og erfiðleikum þeirra og aukið fjármagn og rannsóknir fóru í málefnið (3, 4). Á sjöunda áratugnum fóru sjúkrahús í Bandaríkjunum og Evrópu að opna sérstakar nýburadeildir.
Mikil framför varð í meðferð fyrirbura um 1990 þegar loks náðist að þróa lyf sem minnkar yfirborðsspennu lungnablaðra og koma þannig í veg fyrir að þær falli saman eða fyllist af vökva. Auðveldar það börnunum öndun og bætir loftskipti í lungum. Þannig var hægt að vinna á glærhimnusjúkdómnum og jukust lífslíkur fyrirbura umtalsvert í kjölfarið. Einnig þótti mikil framför þegar hægt var að gefa barkstera á meðgöngu í fyrirbyggjandi skyni til þess að undirbúa lungu fyrirburans fyrir líf utan móðurkviðar (1). Barksterarnir minnka líkur á glærhimnusjúkdómi og alvarleika hans (5,6) og draga um leið úr þörf barnsins fyrir öndunaraðstoð (6). Árið 2000 gaf Bandaríska heilbrigðisstofnunin (e. National Institutes of Health, NIH) út þær ráðleggingar að hjá öllum konum, gengnum 24-34 vikur og í áhættu á að fara af stað í fæðingu á næstu sjö dögum, væri barksterameðferð ákjósanleg (7).
Árið 1976 var Vökudeild barnadeildar Landspítalans opnuð og þótti mikil framför í læknismeðferð fyrirbura hérlendis. Fyrir þann tíma var aðbúnaður ekki nægilega góður, fyrirburar voru í fremur frumstæðum kössum inni á vöggustofu á sængurkvennagangi í stað sérsmíðaðra hitakassa og höfðu læknar ekki allan nauðsynlegan búnað sem til þurfti til að annast börnin. Lífslíkur lítilla fyrirbura voru því ekki miklar áður en deildin opnaði (8). Undanfarin ár og áratugi hafa lífslíkur og batahorfur fyrirbura farið sífellt batnandi jafnt hérlendis sem annarsstaðar í heiminum. Auk tækniframfara og stöðugrar þróunar í tækjabúnaði, hefur bætt fæðingarhjálp, betri meðferð, þjálfun starfsfólks og meiri nærgætni við hjúkrun og alla meðferð fyrirbura skilað bættum árangri (8).
Heimildir
- Glicken, A., Tappero, E. og Mereinstein, G. B. (2006). Evidence-based clinical practice decisions. Í G. B. Merenstein og S. L. Gardner (Ritstj.), Handbook of Neonatal Intensive Care (6. útgáfa, bls. 1-10). St. Louise: Mosby.
- Avery, M. E. (2000). Surfactant deficiency in Hylaine membrane disease; the story of discovery. American Journal of Respiratory and Critical Care Medicine, 161, 1074-1075.
- Þórður Þórkelsson. (2009). Lífslíkur fyrirbura. Læknablaðið, 95, 105.
- Linden, D. W., Paroli, E. T. og Doron, M. W. (2000) Preemies: The Essential Guide for Parents of Premature Babies. New York: Pocket Books.
- Crowley, P. A. (1995). Antenatal corticosteroid therapy: A meta-analysis of the randomized trials, 1972 to 1994. American Journal of Obstetrics and Gynecology, 173, 322-335.
- Smrcek, J. M., Schwartau, N., Kohl, M., Berg, C., Geipel, A., Krapp, M., Diedrich, K og Ludwig, M. (2005). Antenatal corticosteroid therapy in premature infants. Archives of Gynecoly and Obstetrics, 271, 26-32.
- Lepley, M. og Gogoi, R. G. (2006). Prenatal enviroment: effect on neonata outcome. Í G. B. Merenstein og S. L. Gardner (Ritstj.), Handbook of Neonatal Intensive Care (6. útgáfa, bls. 11-36). St. Louise: Mosby.
- Atli Dagbjartsson nýburalæknir, persónulegar upplýsingar.