Á Íslandi er ein lægsta tíðni burðarmálsdauða í heiminum (1) og eru fyrirburafæðingar ein helsta ástæða burðarmálsdauða hérlendis (2,3,4). Mesta áhættan er fyrir eða við fæðingu og á fyrsta sólarhring og fyrstu viku. Eftir það fer áhættan verulega minnkandi (5,6,7,8,2,3,4).
Það sem hefur áhrif á batahorfur og lífslíkur fyrirbura er meðgöngulengd, fæðingarþyngd og þroski barns í móðurkvið og hvort barnið sé fjölburi (9). Meðgöngulengd er sterkasti áhrifaþátturinn og geta lífslíkur barns sem væntanlegt er í heiminn löngu fyrir tímann, tvöfaldast við hverja viku sem þau ná í móðurkviði (10).
Erfitt er að setja niður nákvæmar tölur um lífslíkur fyrirbura eftir meðgöngulengd þar sem þær geta verið mjög breytilegar milli rannsókna. En samantekt sem gerð var árið 2008 um niðurstöður margra rannsókna sýndi að börn fædd fyrir 23 vikur áttu sér nær enga lífsvon. Þau sem fæddust eftir 23 vikur höfðu 15% lífslíkur, eftir 24 vikur 55% og eftir 25 vikur 79% lífslíkur (11). Lífslíkur fyrirbura hafa farið stöðugt batnandi undanfarin ár sérstaklega barna sem fæðast eftir um 23-25 vikur (12,13,14) og lífslíkur fyrirbura á norðurlöndum árið 2012 teljast nú mun betri en þessar tölur segja til um.
Undanfarna áratugi hafa lífslíkur íslenskra fyrirbura batnað og teljast nú orðið mjög góðar (15,5). Það má sjá meðal barna sem lögð voru inn á Vökudeild Barnaspítala Hringsins á árunum 1999-2007. Níutíu og tvö af hundraði barna með fæðingarþyngd milli 1000 og 1500 grömm lifðu og 88,2 % meðal barna léttari en 1000 grömm (16). Yngsta barn sem lifað hefur hérlendis fæddist eftir 23 vikna og fimm daga meðgöngu og það léttasta vó rétt innan við 500 grömm (17).
Í íslenskri rannsókn (5) var athugað hvaða þættir hefðu áhrif á lífslíkur fyrirbura (léttari en 1000 g). Aflað var gagna úr Fæðingaskrá, mæðraskrám mæðranna og sjúkraskrám barnanna. Niðurstöður sýndu hæstu dánartíðni á fyrsta sólahring og voru öndunarfærasjúkdómar og heilablæðing tíðari meðal fyrirburanna sem létust. Stutt meðgöngulengd, sýking á meðgöngu og heilablæðing hjá barni voru taldir helstu áhættuþættir.
Drengir og stúlkur
Rannsóknir hafa sýnt fram á að almennt vegnar stúlkum sem fæðast fyrir tímann betur en drengjum og lífslíkur þeirra eru betri (18,19). Einnig skoruðu stúlkurnar að jafnaði hærra á Apgar kvarðanum en drengirnir (20). Lungnaþroski drengja er talinn heldur hægari en stúlkna og eiga þeir því frekar í vandræðum með öndun. Þar af leiðandi þurfa þeir frekar á öndunaraðstoð að halda (21). Þá eru öndunarhlé og hægsláttur algengari meðal drengja en stúlkna (20). Meiri hætta er á fötlun drengja en stúlkna, sérstaklega vegna taugaskaða eða skerts taugaþroska (22,23).
Fjölburar
Fjölburameðgöngur eru áhættusamari en einburameðgöngur og fjölburar sem fæðast fyrir tímann taldir í meiri áhættu en önnur börn sem fæðast eftir sömu meðgöngulengd (24,25). Áhættan er talin meiri hjá eineggja tvíburum (25).
Heimildir
- Ragnheiður I. Bjarnadóttir. og Reynir Tómas Geirsson. (1999). Flokkun burðarmálsdauða á Íslandi 1994-1998. Læknablaðið, 85, 981-986.
- Ragnheiður I. Bjarnadóttir, Guðrún Garðarsdóttir, Gestur Pálsson og Alexander K. Smárason (Ritstj.). (2006). Skýrsla frá fæðingaskráningunni fyrir árið 2005. Kvennadeild og Barnaspítali Hringsins, Landspítali Háskólasjúkrahús.
- Ragheiður I. Bjarnadóttir, Guðrún Garðarsdóttir, Alexander K. Smárason og Gestur I. Pálsson (Ritstj.). (2007). Skýrsla frá fæðingaskráningunni fyrir árið 2006. Kvennadeild og Barnaspítali Hringsins, Landspítali Háskólasjúkrahús.
- Ragnheiður I. Bjarnadóttir, Guðrún Garðarsdóttir, Alexander K. Smárason og Gestur I. Pálsson (Ritstj.). (2008). Skýrsla frá fæðingarskráningunni fyrir árið 2007. Kvennadeild og Barnaspítali Hringsins, Landspítali Háskólasjúkrahús.
- Brynja K. Þórarinsdóttir, Ingibjörg Georgsdóttir, Jóhann Heiðar Jóhannsson og Atli Dagbjartsson. (2009). Litlir fyrirburar á Íslandi 1991-1995. Áhættuþættir fyrir burðarmáls- og nýburadauða. Læknablaðið, 95, 107-111.
- Reynir Tómas Geirsson, Guðrún Garðarsdóttir, Gestur Pálsson, Ragnheiður I. Bjarnadóttir og Hildur Harðardóttir. (2003). Skýrsla frá fæðingaskráningunni fyrir árið 2002. Kvennadeild og Barnaspítali Hringsins Landspítali Háskólasjúkrahús.
- Reynir Tómas Geirsson, Guðrún Garðarsdóttir, Gestur Pálsson og Ragnheiður I. Bjarnadóttir (Ritstj.). (2004). Skýrsla frá fæðingaskráningunni fyrir árið 2003. Kvennadeild og Barnaspítali Hringsins, Landspítali Háskólasjúkrahús.
- Reynir Tómas Geirsson, Guðrún Garðarsdóttir, Gestur Pálsson og Ragnheiður I. Bjarnadóttir (Ritstj.). (2005). Skýrsla frá fæðingaskráningunni fyrir árið 2004. Reykjavík: Kvennadeild og Barnaspítali Hringsisn Landspítali Háskólasjúkrahús.
- Tyson, J. E. Parikh, N. A., Langer, J., Green. C. og Higgins, R. D. (2008). Intensive care for extreme prematurity – moving beyond gestational age. The New England Journal of Medicine, 358, 1672-1681.
- Cole, T. J., Hey, E. og Richmond, S. (2009). The PREM score: a graphical tool for predicting survival in very preterm births. Archives of Disease in Childhood – Fetal and Neonatal Edition. Sótt 20. október 2009 af http://fn.bmj.com/cgi/rapidpdf/adc.2009.164533v1?maxtoshow=&HITS=10&hits=10&RESULTFORMAT=&fulltext=the+PREM+score&searchid=1&FIRSTINDEX=0&sortspec=relevance&resourcetype=HWCIT
- Ringer, S. A. (2008). Care of the extremely low-birth-weight infant. Í J. P. Cloherty, E: C. Eichenwald, og A. R. Stark (Ritstj.), Manual of Neontalal Care (6. Útgáfa, bls. 78-86). Philadelphia: Wolters Kluwer Health/Lippincott Williams & Wilkins.
- Field, D. J., Dorling, J. S., Manktelow, B. N. og Draper, E. S. (2008). Survival of extremely premature babies in geographically defined population: prospective cohort study of 1994-9 compared with 2000-5. BMJ, 336,1221-1223.
- Fischer, N., Steurer, M. A., Adams, M. og Berger, T. M. (2009). Survival rates of extremely preterm infants (gestational age <26 weeks) in Switzerland: impact of the Swiss guidelines for the care of infants born at the limit of viability. Archives of Disease in Childhood – Fetal and Neonatal Edition, 94, 407-413.
- Lundqvist, P., Källén, K., Hallström, I. og Westas, L. H. (2009). Trends in outcomes for very preterm infants in the southern region of Sweden over a 10-year period. Acta Pædiatrica, 98, 648-653.
- Ingibjörg Georgsdóttir og Atli Dagbjartsson. (2003). Litlir fyrirburar á Íslandi. Lífslíkur og fötlun. Læknablaðið, 89, 299-302.
- Ragnheiður Sigurðardóttir og Rakel Björg Jónsdóttir. (2007). Börn á Vökudeild 1976-2006. Landspítali Háskólasjúkrahús – Barnaspítali Hringsins.
- Ragnheiður Sigurðardóttir, persónulegar upplýsingar.
- Naeye, R. L., Burt, L. S., Wright, D. L., Blanc, W. A. og Tatter, D. (1971). Neonatal mortality, the male disadvantage. Pediatrics, 48, 902-906.
- Stevenson, D. K., Verter, J. Fanaroff, A. A., Oh, W., Ehrenkranz, R. A., Shankara, S. o.fl. (2000). Sex differences in outcomes of very low birthweight infants: the newborn male disadvantage. Archives of Disease in Childhood, 83, 182-185.
- Brothwood, M.,Wolke, D., Gamsu, H., Benson, J. og Cooper, D. (1986). Prognosis of the very low birthweight baby in relation to gender. Archives of Disease in Childhood, 61, 559-564.
- Elsmén, E., Hansen Pupp, I. og Hellstöm-Westas, L. (2004). Preterm male infants need more initial respiratory and circulatory support than female infants. Acta Paediatrica, 93, 529-533.
- Rose, J., Butler, E. E., Lamont, L. E., Barnes, P. D., Atlas, S. W. og Stevenson, D. K. (2009). Neonatal brain structure on MRI and diffusion tensor imaging, sex and neurodevelopment in very-low-birthweight preterm children. Developmental Medicine and Child neurology, 51, 526-535.
- Spinillo, A., Montanari, L., Gardella, B., Roccio, M., Stronati, M og Fazzi, E. (2009). Infant sex, obstetric risk factors, and 2-year neurodevelopmental outcome among preterm infants. Developmental Medicine and child Neurology, 51, 518-525.
- Gardner, M. O., Goldenberg, R. L., Cliver, S. P., Tucker, J. M., Nelson, K. G. og Copper, R. L (1995). The origin and outcome of preterm twin pregnancies. Obstetrics & Gynecology, 85, 553-557.
- Rydhstroem, H. og Heraib, F. (2001). Gestational duration, and fetal and infant mortality for twins vs singletons. Twin Research, 4, 227-231.