Fyrirburar á vökudeild fá Lulla Doll að gjöf

Á myndinni eru Drífa Baldursdóttir (hægra megin) og Anna Sigríður Pétursdóttir (vinstra megin) sem eru í stjórn Félags fyrirburaforeldra. Í miðjunni er Eyrún Eggertsdóttir, sem hannaði Lulla doll og stofnaði RóRó.

 

Róró í samstarfi við Félag fyrirburaforeldra gefur Lúllu dúkkur til hjálpar fyrirburum á Íslandi

Í tilefni af Alþjóðlegum degi fyrirbura hefur íslenska nýsköpunarfyrirtækið RóRó gefið félagi fyrirburaforeldra 50 Lúllu dúkkur til að gefa áfram til fyrirbura á vökudeild. Alþjóðlegur dagur fyrirbura er 17. nóvember og í ár er dagurinn haldinn hátíðlegur í tíunda sinn, í yfir 100 löndum um allan heim. Markmiðið með deginum er að vekja athygli á fyrirburafæðingum og þeim erfiðleikum sem að fyrirburar og fjölskyldur þeirra þurfa oft á tíðum að glíma við.

 

Lulla doll fyrir fyrirbura

Foreldrar sem eiga fyrirbura inná Vökudeild geta sótt um að fá Lúllu í hendurnar en eina krafan er að þau séu tibúin að nota dúkkuna og deila reynslu sinni með RóRó. Hægt er að nálgast dúkkuna hjá Félagi fyrirburaforeldra í gegnum netfangið drifa@fyrirburar.is

 

“Lúlla hefur nú þegar hjálpað mörgum fyrirburum og verið notuð á vökudeildum en við viljum gera enn betur og erum að huga að nýrri vöru sem er sértaklega hugsuð fyrir þessar aðstæður. Við höfum alltaf lagt mikla áherslu á að fá álit frá foreldrum til að leiða okkur áfram í vöruþróun.” segir Eyrún.

 

Hugsmíðin hófst hjá Eyrúnu Eggertsdóttur þegar hún leitaði lausna fyrir fyrirbura sem þurfa að eyða miklum tíma í einangrun og skortir nærveru.

“Lúlla var hönnuð með það að markmiði að veita fyrirburum sem þurfa að eyða tíma í einangrun á vökudeild þá upplifun að einhver sé nálægt þeim og veita þeim öryggistilfinningu þegar foreldrar geta ekki verið hjá þeim. Rannsóknir sýna að þegar börn upplifa nálægð þá ná þau auknu jafnvægi í lífsmörkum og betri líðan sem getur verið gífurlega mikilvægt fyrir þroska þeirra”.

 

Hvernig hjálpar Lúlla

Hönnun Lúllu var frá byrjun hugsuð til að bæta aðstöðu fyrirbura en á hverju ári fæðast 15 milljónir barna fyrir tímann í heiminum. Kengúruhald er mikilvæg aðferð sem er mælt með til að stuðla að vellíðan og aukins þroska fyrirbura og er það sem Lúlla reynir að líkja eftir. Ekki eiga þó allir fyrirburar kost á kengúrumeðferð þar sem ekki er mælt með að fjarlægja minnstu fyrirburana úr hitakössum. Aðstaða fyrir foreldra getur ennfremur verið takmörkuð á vökudeildum. Brýnt er að leita leiða til að auka vellíðan fyrirbura og bæta upp fyrir þá einangrun og skort á nálægð sem þau þurfa að þola.

 


Aukið jafnvægi í öndun og hjartslætti
Lúlla dúkkan er rafdrifin tuskubrúða sem ætlað er að líkja eftir nærveru við foreldri með náttúrulegum hjartsláttar- og öndunarhljóðum. Hugmyndin að virkni og áhrifum dúkkunnar er byggð á rannsóknum á áhrifum nærveru og þá sérstaklega nærveru við öndunar- og hjartsláttarhjóð. Grunnvirkni Lúllu dúkkunnar á að stuðla að auknu jafnvægi í öndun og hjartslætti ungra barna og þannig minnka líkur á öndunarhléum sem eru algeng hjá ungbörnum, þá sérstaklega hjá fyrirburum. Jafnframt á virkni dúkkunnar að stuðla að betri líðan og auknum svefngæðum hjá börnum.

 

Félag fyrirburaforeldra

Félag fyrirburaforeldra var stofnað árið 2008. Félagið er ætlað öllum fyrirburaforeldrum til að hittast og ræða saman og til að gæta hagsmuna fyrirbura og foreldra þeirra. Félagið heldur úti vefsíðunni fyrirburar.is, auk facebook síðu og foreldragrúppu. Formaður félagsins er Drífa Baldursdóttir.

 

"Félag fyrirburaforeldra þakkar kærlega fyrir gjöfina. Við erum sannfærð um að hún eigi eftir að koma að góðum notum hjá fjölskyldum sem eru að ganga í gegnum þá erfiðu reynslu að dvelja á vökudeild".

 

 

Þeir sem hafa áhuga á að fá Lúllu mega hafa samband við Félag Fyrirburaforeldra í gegnum netfangið drifa@fyrirburar.is

 

Egill Örn, einn af fyrstu fyrirburunum á Íslandi sem fékk Lúllu dúkkuna á vökudeildinni. Móðir: Lena Björk Kristjánsdóttir

 

Hægt er að lesa meira um Lúllu inn á vefsíðunni Lulladoll.com