Réttindi fyrirbura og fjölskyldna þeirra

Hér eru upplýsingar um hvaða rétt foreldrar geta átt til greiðsla og bóta. Á Kvennadeild Landspítalans og Barnaspítala Hringsins eru starfandi félagsráðgjafar sem geta veitt aðstoð.

Veikindi og sjúkdómar á meðgöngu eða hótandi fyrirburafæðing
Konur sem eru á vinnumarkaðnum og veikjast eiga rétt á að fara í veikindaleyfi frá vinnu og fá laun á meðan í ákveðinn tíma sem er misjafn eftir áunnum rétti konunnar. Þær geta hafið fæðingarorlof tveimur mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag barnsins (án þess að það hafi áhrif á fæðingarorlofið eftir fæðingu barns). Þær konur geta sótt um sjúkradagpeninga, en ekki er hægt að fá nema eitt að ofantöldu í einu. Það er t.d. ekki hægt að þiggja sjúkradagpeninga um leið og laun í veikindaleyfi eða greiðslur frá fæðingarorlofssjóði (1).

Konur sem eru í námi geta sótt um sjúkradagpeninga. Þær geta ekki farið í fæðingarorlof fyrir fæðingu þar sem þær fá fæðingarstyrk eftir fæðingu en ekki fæðingarorlof (en eiga rétt á lengingu á fæðingastyrk eftir fæðingu þurfi barnið að vera á sjúkrahúsi í meira en sjö daga) (1)

Á vefsíðu Tryggingastofnunnar (2) eru nánari upplýsingar um sjúkradagpeninga.

Faðir getur líka átt rétt á veikindaleyfi vegna maka, ef barnsmóðir hans veikist alvarlega á meðgöngu og/eða átt rétt á veikindastyrk hjá stéttarfélagi sínu.

Fyrirburafæðing

Ef barn fæðist fyrir tímann geta foreldrar hafið fæðingarorlof um leið og barnið fæðist. Foreldrar eiga sameiginlegan rétt til níu mánaða fæðingarorlofs, þar af þarf móðir að taka þrjá mánuði og faðir þrjá mánuði en þau mega ráða hvernig hinir þrír skiptast. Þurfi barnið að vera á sjúkrahúsi í meira en sjö daga eftir fæðingu eiga foreldrar rétt á lengingu á fæðingarorlofi um þá daga sem barnið dvelur á sjúkrahúsinu, að hámarki fjóra mánuði. Fjölburaforeldrar fá aukinn rétt til fæðingarorlofs og fá sameiginlega aukalega þrjá mánuði með hverju barni (1).

Foreldragreiðslur og umönnunarbætur

Ef barnið er alvarlega veikt er hægt að sækja um auka greiðslur í allt að þrjá mánuði til viðbótar við fæðingarorlof (1). Ef barn greinist með langvinna sjúkdóma eða fötlun geta foreldrar öðlast rétt á foreldagreiðslum eða umönnunarbótum (3).

Fósturlát, andvana fæðing og andlát barns eftir fæðingu

Foreldrar öðlast einnig rétt til fæðingarorlofs ef fósturlát verður eftir 18 vikna meðgöngu eða andvana fæðing eftir 22 vikna meðgöngu. Eingöngu er heimilt að taka fæðingarorlof út næstu tvo mánuði eftir fósturlát og út næstu þrjá mánuði eftir andvana fæðingu. Foreldrarnir eiga þennan rétt saman og mega ráða hvað hvor foreldri tekur mikið. Ef barn fæðist á lífi en andast eftir fæðingu gilda sömu reglur og almennt gilda um lifandi fædd börn, þ.e.a.s. fullur réttur foreldra til fæðingarorlofs (1).

Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu fæðingarorlofssjóðs (4).

Heimildir:
  1. Lög um fæðingarorlof nr. 95/2000.
  2. Tryggingamálastofnun. (á.á.) Sjúkradagpeningar. Sótt 11. september 2009 af http://www.tr.is/heilsa-og-sjukdomar/sjukradagpeningar
  3. Lög um félagslega aðstoð nr. 2007/99, 4. Grein
  4. Fæðingarorlofssjóður. (á.á.). Frávik frá almennum reglum. Sótt 28. apríl 2009 af http://www.faedingarorlof.is/fravik-fra-almennum-reglum/