Frægir fyrirburar

Frægar persónur sem voru fyrirburar eða veikburða nýburar!

Margir merkir menn hafa byrjað líf sitt sem litlir viðkvæmir nýburar. Eftirtaldir voru fæddir fyrirburar eða taldir hafa vera fyrirburar – eða hafa að minnsta kosti verið litlir eða veikburða við fæðingu. En erfitt er að sannreyna allar svona gamlar sögur og er þetta sett hér til gamans.

Hægt er að nálgast upplýsingar um persónurnar á wikipedia – með því að klikka á nöfn þeirra.

Sir Isaac Newton (1642-1727) 
Fæddist fæddist á jóladag árið 1642 (þar sem England hafði ekki tekið upp nýtt dagatal páfa hefði fæðingardagur hans skv. því verið 4. janúar 1643) og lifði til 85 ára aldurs. Við fæðingu vó hann aðeins um 5-6 merkur (3 pund) og var talið að hann ætti sér enga lífsvon við fæðingu. Móðir hans sagði að hún hefði getað komið honum fyrir í eins lítra krús. Þessi litli fyrirburi varð einn þekktasti snillingur vísindanna allra tíma og er þekktur fyrir að hafa sett fram kenningu sína um þyngdarlögmálið.

 

Jean-Jacques Rousseau (1712-1788) 
Rousseau var frægur heimspekingur og uppeldisfræðingur og setti fram margar þekktar kenningar og skrifaði meðal annars uppeldisritið um Émile. Rousseau er af sumum talinn hafa verið fyrirburi.

 

Napóleon Bónaparte (1769-1821)
Franski keisarinn og herforinginn Napóleon Bónaparte er af sumum talinn hafa fæðst fyrir tímann.

 

Victor Hugo (1802-1885)

Franski rithöfundurinn Victor Hugo er talinn hafa fæðst fyrir tímann. Þekktustu verk hann eru Vesalingarnir (Les Misérables) og Hringjarinn í Notre-Dame.

 

Charles Darwin (1809-1882
Darwin 
var náttúrufræðingur og var þekktastur þróunarkenninguna um uppruna og þróun dýrategunda þar sem hann hélt því fram að hinir færustu lifi af. Hann er talinn hafa fæðst fyrir tímann.

 

Mark Twain (1835-1910)
Fæddist um 2 mánuðum fyrir tímann og var 9 merkur (5 pund). Á þessum tíma var ekki búist við því að svona ungur fyrirburi gæti lifað. En hann átti eftir að lifa og verða einn þekktasti rithöfundur heims og skrifaði meðal annars Ævintýri Stykkilsberja-Finns

 

Sir Winston Churchill (1874-1965) 
Hann fæddist 30. nóvember, eftir 8 mánaða hjónaband foreldra sinna, en ekki var búist við komu hans fyrr en í janúar árið eftir. Hann þótti hafa einstaklega kröftugan grátur við fæðingu. Churchill varð stjórnmálamaður og var forsætisráðherra Breta um árabil og leiðtogi þeirra í heimstyrjöldinni síðari

 

Albert Einstein (1879-1955)
Einstein er talinn hafa fæðst fyrir tímann. Hann olli foreldrum sínum áhyggjum vegna þess hve seinþroska hann var, átti erfitt með mál og var lítt gefinn fyrir leiki. Hann hefur einnig verið sagður hafa verið lesblindur. Einstein varð einn merkasti eðlisfræðingur 20. aldarinnar og fékk Nóbelsverðlaun í eðlisfræði og er af mörgum talinn einn mesti snillingur allra tíma. Spakmæli eftir Einstein: „Það eru aðeins tvær leiðir til að lifa lífinu. Önnur gengur út frá því að ekkert sé kraftaverk. Hin gengur út á það að allt sé kraftaverk“. (ísl. þýðing á spakmæli tekin af tilvitnun.is)

 

Anna Pavlova (1881- 1931) 
Fæddist árið 1881 og lifði til 50 ára aldurs. Hún var fædd tveimur mánuðum fyrir tímann og þótti afar lítil og viðkvæm fyrstu mánuði lífins. Hún varð frægasta ballerína allra tíma og er sérstaklega þekkt fyrir dans sinn í Svanavatninu og gerð hefur verið kvikmynd um hana.

 

Pablo Picasso (1881-1973)
Fæddist 25. október í Malaga á Spáni og telja sumir að hann hafi verið fæddur fyrir tímann. Við fæðingu taldi ljósmóðirin að hann ætti ekki lífs von og lagði hann til hliðar meðan hún sinnti móður hans. En reyndur læknir náði að endurlífga barnið. Picasso varð einn þekktasti listamaður 20. aldarinnar. Hann sýndi snemma áhuga á listamálun og að sögn móður hans var fyrsta orðið sem hann lærði „piz piz“ sem á íslensku þýðir blýantur.

 

Franklin D. Roosevelt (1882-1945)
Franklin Roosevelt var 32. forseti Bandaríkjanna og sat sem forseti í 12 ár, eða 4 kjörtímabili, en áður hafði enginn foreseti setið lengur en 2 kjörtímabil. Sumstaðar er vitnað til þess að Roosevelt hafi verið fyrirburi en á öðrum stað stendur að hann hafi verið fæddur 18 merkur (10 pund). Fæðingin var löng og erfið og við fæðingu var Roosevelt blár og lífvana og var blásið lífi í hann. Talið var að hann og móðir hans hafi fengið of mikið af klóríformi en hjúkrunarkonur sögðu seinna að þær hefðu aldrei búist við að barnið myndi lifa.

 

Stevie Wonder (1950)
Fæddist 13. maí árið 1950, hann fæddist fyrir tímann og var fyrstu 56 daga lífs síns í hitakassa. Hann er blindur af sökum fyrirburasjúkdómsins ROP (retinopathy of prematurity) og er hann einn af þeim fyrirburum frá þessum árum sem talið er að hafi orðið blindur vegna of mikils súrefnis áður en vitað var um skaðsemi þess. Stevie Wonder sýndi snemma tónlistarhæfileika og var aðeins 11 ára þegar hann fór fyrst að geta sér frægðar. Hann er heimsþekktur tónlistarmaður og hefur samið mörg lög sem þekkt eru um allan heim og unnið Óskars og Grammy verðlaun og var árið 2009 heiðraður af Barack Obama forseta Bandaríkjanna.

 

Patrick Bouvier Kennedy (7. ágúst 1963 – 9. ágúst 1963)
Var yngsti sonur John F. Kennedy og konu hans Jacqueline. Patrick fæddist rúmlega 8 merkur eftir 34-35 vikna meðgöngulengd og lést aðeins tveggja daga gamall vegna öndunarsjúkdóms fyrirbura sem nefnist glærhimnusjúkdómur. Faðir hans var forseti Bandaríkjanna þegar hann fæddist og vakti það mikla athygli þar í landi og samúð meðal þjóðarinnar þegar forsetahjónin misstu son sinn. Í kjölfarið varð aukin vakning í þjóðfélaginu um fyrirburafæðingar og meiri athygli á nýburalækningar og rannsóknir á því sviði. Dauðsfall Kennedy barnsins varð kveikjan að því að sérstakar nýburadeildir voru stofnaðar.

 

Derek Paravicini (1979)
Tónlistarsnillingurinn Derek Paravicini fæddist árið 1979, rétt rúmar 2 merkur eftir aðeins 25 vikna meðgöngu. Hann þurfti mikla önduraðstoð og þar sem sjúkrahúsið átti ekki nægilega þróuð tæki til að stjórna magni súrefnisins olli það skemmdum á augum hans og heila, sem er talið hafa valdið því að hann er í dag blindur og einhverfur. Þegar Derek var aðeins 2 ára byrjaði hann spila á píanó og varð brátt þekktur sem undrabarn í tónlist og hélt fyrstu stórtónleika sína aðeins 10 ára gamall. Hann getur spilað tónlist eftir að hafa heyrt hana einu sinni. Hér má finna heimasíðu hans og hér eru myndbönd hans á Youtube

Heimildir: