Reynslusaga

Mattheus (31 vika)

Mattheus

Hérna er mín saga, ég fæddi eftir 31 vikur 5 daga

Þann 13. júlí flýg ég til Íslands í frí komin 27 vikur og 4 daga á leið. Strax eftir komuna til Íslands byrja ég að fá bjúg um allan líkamann. Einnig fæ ég mikil höfuðverkjaköst sem ég hélt að væri ennis og kinnholusýking.

Ég fékk mér eina matskeið á dag af eplaediki sem hjálpaði aðeins á bjúgnum til þess að byrja með.

Planið var að ég myndi vera í fríi á Íslandi í mánuð en vegna mikillar vanlíðan flýtti ég heimferðinni um viku. 

Þann 8. ágúst flýg ég heim til Danmerkur og fer beint í það að pakka þar sem að við myndum flytja á næstu dögum. 

Á þessum tímapunkti var ég komin með stöðugan bjúg og rosalegan hausverk. Ég átti erfitt með að ganga vegna gífurlega verkja út af bjúgnum.

Föstudaginn 10. ágúst flytjum við svo loksins, mér leið alveg ágætlega þennan dag en þegar líða tók á kvöldið var hausverkurinn óbærilegur þannig að ég ákveð að fara í snemma í rúmið.

Öll nóttin einkenndist af því að í gegnum svefninn fann ég fyrir svakalegum höfuðkvölum og leið verulega illa.

Vakna mjög snemma á laugardagsmorgninum og ákveð að ná í morgunmat fyrir allt liðið sem hafði hjálpað til við að flytja daginn áður.

Ég átti þó mjög erfitt með um gang vegna bjúgs og var með stöðuga verki.
Ég ákvað að hringja í mömmu mína og kvarta aðeins sem að ráðlagði mér að hafa samband við læknavaktina.

Mér fannst þó ekki vera ástæða til þess og fór og fékk mér morgunmat með liðinu. Fór samt að pæla aðeins í því að láta kíkja á mig eftir því sem leið á hádegið þar sem að mér var svo verulega illt í fótunum vegna bjúgsins.

Ég hef samband við læknavaktina sem ákveður að kíkja á mig.
Ég kemst inn til þeirra kl 11.30 og byrjar læknirinn að taka blóðþrýstinginn minn sem á þessum tímapunkti er 130/180. Hún biður mig um að gera þvagprufu sem hún svo stixar og kemur í ljós fjórir plúsar af prótíni.

Hún ákveður að hafa samband við fæðingardeildina og ætlar að panta sjúkrabíl til að sækja mig. Ég næ samt að fullvissa hana um það að mér liði alveg ágætlega og gæti alveg keyrt sjálf þar sem að ég kom sjálf keyrandi á læknavaktina. Hún sagði að ef mér liði illa í það minnsta ætti ég að stoppa bílinn og kalla á sjúkrabíl, ég var þó mun rólegri en hún og hugsaði með mér hvað í ósköpunum væri að henni þar sem að mér leið ekkert svo illa, mér var bara illt í löppunum út af bjúg með einhvern hausverk.

Ég keyri upp á fæðingardeild frekar áhyggjulaus og hitti þar manninn minn sem var í frekar miklu stresskasti, ég var frekar róleg bjóst ekki við því að eitthvað væri að.

Ég er lögð inn kl. 13.30 og eru teknar prufur og gerðar allskonar rannsóknir. Kl 16 er ákveðið að ég skuli vera lögð inn á meðgöngudeildina og ætti að liggja þar þangað til að barnið fæddist. Rannsóknirnar sýndu að ég var komin með meðgöngueitrun.

Ég er keyrð upp á meðgöngudeild um kl. 17 en næ ekki að vera lengi þar því að um kl. 18.30 byrja ég að fá andþyngsli og er blóðþrýstingurinn farinn að hækka verulega. Kl. 19 er ég svo keyrð niður á fæðingardeildina aftur og er skellt inn á fæðingarstofu þar sem að haldið auga með blóðþrýstingnum og mér gefin lyf.

Lyfin virkuðu aðeins í 10 mínútur í senn, blóðþrýstingurinn féll og hækkaði svo alveg gífurlega í hvert skipti.

Kl. 21 var ákveðið að gefa mér sterasprautu fyrir lungun á barninu og átti svo að vera keisari daginn eftir kl 9.30 svo að barnið myndi ná að fá 2 sterasprautur áður en það kæmi í heiminn.

Ástandið byrjaði að versna og versna og blóðþrýstingurinn hækkaði og hækkaði, ég var byrjuð að krampa og blóðþrýstingurinn kominn í 200/180.

Þarna var klukkan um 2.30 aðfaranótt sunnudags 12. ágúst og var ákveðið að nú þyrfti að taka barnið út, ég fékk sterasprautu og var svo keyrð inn á skurðarstofuna.

Kl. 3.47 fæddist svo yndislega fallegur drengur, tæpar 7 merkur eða 1724 gr og 43,5 cm

Ég fékk að sjá framan í hann og kyssa hann bless áður en þeir hlupu með hann á vökudeildina. Hann fékk nafnið Mattheus

 

Hér koma nokkrar myndir

Fyrsta skiptið í mömmufang

Húð við húð hjá pabba sínum

 
 
 

Félagið

Félag fyrirburaforeldra var stofnað árið 2008.

Félagið er ætlað öllum fyrirburaforeldrum til að hittast og ræða saman og til að gæta hagsmuna fyrirbura og foreldra þeirra.

Væntanlegt er hér á vefinn upplýsingar um félagið og lög þess og hvað helst sé á dagskrá hjá félaginu hverju sinni.

Aðalfundur verður haldinn snemma árs og eru áhugasamir beðnir um að fylgjast auglýsingu hér á vefnum og á facebook síðu fyrirburaforeldra.

Um síðuna

Umsjónarmaður síðunnar er Drífa Baldursdóttir lýðheilsufræðingur og fyrirburamóðir. Hægt er að hafa samband í gegnum vefpóst á drifa@fyrirburar.is

Heimasíðan er unnin af Drífu Baldursdóttur fyrirburamóður. Sambýlismaður hennar Sveinbjörn Hafsteinsson og fyrirburamamman Baddý Sonja Breidert sáu um tæknilegu hliðina við uppsetningu heimasíðunnar.

Um verkefnið

Fræðsluefnið sem er á síðunni vann Drífa sem meistaraverkefni í Lýðheilsufræðum við Háskólann í Reykjavík árið 2009, undir leiðsögn dr. Geirs Gunnlaugssonar prófessors við skólann og með samvinnu við yfirmenn Vökudeildar Barnaspítala Hringsins, Þórð Þórkelsson yfirlækni og Ragnheiði Sigurðardóttur deildarstjóra.
Þróunarverkefnið um gerð vefsíðunnar fyrirburar.is hlaut styrk frá Nýsköpunarsjóði Námsmanna árið 2009.

Þessi heimasíða er tileinkuð Hildi Arneyju dóttur Drífu sem kom í heiminn 11 vikum of snemma, því án hennar innkomu í líf hennar hefði þetta verkefni aldrei orðið að veruleika.